132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:35]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að hér komi fram vegna þessa máls upplýsingar sem ég hef fengið eftir að þessi beiðni kom fram í fjárlaganefnd. Þær gætu hugsanlega verið skýring á því að þessar upplýsingar hafa ekki borist. Samkvæmt ósk hv. þingmanns Jóhönnu Sigurðardóttur fór forsætisnefnd þingsins fram á það við Ríkisendurskoðun fyrir líklega um það bil einu og hálfu ári síðan að þetta mál yrði kannað í heild sinni, gerð nákvæm úttekt á því og unnin skýrsla um hvað þarna hefði raunverulega gerst, hvernig að þessu var staðið og hvað þarna væri í gangi. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef nú má búast við því að Ríkisendurskoðun, sem er búin að vinna að þessu núna um nokkurt skeið, skili niðurstöðu um þetta mál núna á vordögum. Það væri gott ef við fengjum minnisblaðið og rétt hjá hv. þingmanni að ganga eftir því. En ég held að það sé rétt að hinkra kannski með meiri ræðuhöld um málið þar til skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir því hún verður mjög til bóta og vonandi læra menn eitthvað af henni. En því miður finnast fleiri dæmi um að viðlíka kerfi hafa blásið mjög út í fjárhagslegu tilliti og á stundum ekki einu sinni gert það gagn sem til var ætlast þrátt fyrir það.