132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[16:04]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir er flutt á grundvelli samþykktar kirkjuþings í október sl. sem beindi tilmælum til mín að flytja þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Þegar frumvarp um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar var til umræðu á Alþingi sem varð síðar að lögum nr. 78/1997, þjóðkirkjulögunum, var lagasetningunni hagað með þeim hætti að um væri að ræða rammalöggjöf sem setti þjóðkirkjunni ytri mörk sem hún gæti síðan unnið út frá sjálf og skipað sínum innri málum og sett innri reglur, m.a. með setningu starfsreglna frá kirkjuþingi. Ég tel að löggjöfin frá 1997 hafi reynst vel en eins og jafnan er má alltaf gera betur og það hefur verið gert af hálfu kirkjunnar. Kirkjuþing kaus árið 2004 nefnd sem var falið að fara yfir prófastsdæmaskipan landsins en biskupafundur hafði þá lagt til víðtækar breytingar á henni. Nefndinni var einnig falið að skoða núgildandi fyrirkomulag kosninga til kirkjuþings. Nefndin kynnti tillögurnar almennri kynningu um allt land og aflaði umsagnar héraðsfunda, og skilaði síðan biskupafundur og kirkjuráð áliti sínu. Nefndin taldi að 21. gr. laganna um kjördæmaskipan til kirkjuþings væri of þröng. Þar eru kjördæmin njörvuð niður í níu tiltekin kjördæmi og taldi nefndin að þetta ákvæði stæði í vegi fyrir að hægt væri að gera nauðsynlegar breytingar á skipan prófastsdæma.

Með frumvarpi því sem ég flyt nú er einkum ætlað að losa um þetta ákvæði þannig að kjördæmaskipan og skipan prófastsdæma geti verið með öðru móti. Ef frumvarpið verður að lögum verður kosið til kirkjuþings samkvæmt hinni nýju skipan á næsta ári en kjörtímabil þingsins er fjögur ár.

Kirkjuþing og yfirstjórn kirkjunnar telja mjög brýnt að hún geti gert breytingar á starfsreglum um kirkjuþing og kjör þingsins. Þá er það einnig skoðun þjóðkirkjunnar að hún fái sjálf að ráða fjölda kirkjuþingsfulltrúa, m.a. í því skyni að geta jafnað vægi kjördæma. Áfram gildir þó að leikmenn skuli vera fleiri en vígðir. Í dag eru 12 leikmenn á kirkjuþingi en prestar eru níu. Í stað orðsins „prestar“ er lagt til að komi orðið vígðir en það hugtak nær einnig yfir aðra vígða menn er starfa innan þjóðkirkjunnar svo sem djákna. Þá telur þjóðkirkjan ekki rétt að hafa niðurnjörvað í lagatexta hvernig umdæmaskipting vígslubiskupsembættanna, stiftanna, skuli vera og vill geta breytt þeim umdæmamörkum ef hún sér ástæðu til.

Með hliðsjón af tillögum kirkjuþings flyt ég þetta frumvarp og mælist til að Alþingi taki það til umræðu og síðan meðferðar í nefnd.

Ég nefndi áðan að kosið væri til kirkjuþings á næsta ári. Ef frumvarpið nær ekki fram að ganga á því þingi sem nú situr frestast framkvæmdin um fjögur ár því þá yrði kjörið til kirkjuþings samkvæmt þeirri skipan sem gildir að óbreyttum lögum. En verði frumvarpið að lögum má ætla að aukakirkjuþing verði kallað saman svo unnt verði að ganga frá nýjum starfsreglum um kirkjuþingskjör.

Ég segi hið sama um þetta frumvarp og það sem ég flutti áður að af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið leitað umsagnar um það eða skoðun annarra en þess sem lagði það fyrir ráðuneytið að flytja þetta mál á Alþingi. Ég legg því til að hv. allsherjarnefnd skoði málið í því ljósi og legg til að frumvarpinu verði vísað til hennar að lokinni umræðu.