132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur mælt fyrir um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er svo sem ekki mikið að vexti. En ég vil þó árétta og halda til haga sjónarmiðum varðandi skipan mála hjá þjóðkirkjunni. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að þjóðkirkjan, sem er ríkiskirkja, haldi um og sé þáttur í grunnmenningarstarfi þjóðarinnar og hún hefur verið það um aldir. Skipan prestakalla, prófastsdæma og biskupsumdæma hefur verið hluti af íslenskri þjóðskipan um aldir og þess vegna er alveg ástæða til að gera ekki meiri breytingar á þeirri skipan en nauðsynlegt er til að starfsemi þjóðkirkjunnar geti aðlagast og fylgt nýjum og breyttum tímum. Og að öðru leyti að hafa í huga hina miklu og sterku menningarskyldur sem þjóðkirkjan hefur í íslensku samfélagi.

1. gr. lýtur að 18. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Gert er ráð fyrir að hún verði felld burt eins og hún er nú. Hún er núna í þremur undirliðum. 18. gr. í núgildandi lögum sem gert er ráð fyrir að falli brott, hljóðar svo, hæstv. forseti:

„Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir Múla-, Austfjarða-, Skaftafells-, Rangárvalla-, Árness-, Kjalarness-, Reykjavíkur-, Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.

Umdæmi vígslubiskups á Hólum nær yfir Húnavatns-, Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Kirkjuþing getur ákveðið aðra skipan vígslubiskupsumdæma. Öðlast hin nýja skipan þá fyrst gildi er tvö kirkjuþing hafa samþykkt slíka tillögu óbreytta.“

Í upphafi greinarinnar er kveðið á um hin fornu skipan biskupsstólanna á sínum tíma, Hólabiskupsdæmis og Skálholtsbiskupsdæmis. En síðan er ákvæði um að kirkjuþing geti ákveðið aðra skipan eins og reyndar raunin er orðin á að t.d. Hólabiskupsdæmi tekur nú yfir stærra svæði, tekur yfir hluta af Múlaprófastsdæmi og líklega Norður-Múlasýslu, eða gamla Austurland. Kirkjuþing hefur nú þegar heimild til að breyta þessu. Ég sé því ekki að kveða þurfi neitt nánar á um það í umræddri grein. Mér finnst 1. gr. í hinu nýja frumvarpi óþörf, þ.e. að fella eigi alla þessa þætti niður, en hún hljóðar svo: „Kirkjuþing ákveður skipan umdæma vígslubiskupa.“ Mér finnst 1. gr. óþörf. Allar þessar heimildir eru í núverandi grein til að kirkjuþing geti hnikað þar til en haldið til haga hinni fornu skipan biskupsdæma sem mér finnst alveg vera réttmætt. Þess vegna finnst mér þessi 1. gr. bara algerlega óþörf og snertir ekkert sjálfstæði kirkjunnar á nokkurn hátt miðað við þau lög sem núna eru fyrir hendi.

Þá er það 2. gr. þar sem gert er ráð fyrir að fella niður þrjár undirgreinar í 21. gr., þ.e. um að skipa landinu í kjördæmi til að kjósa til kirkjuþings. Það má í sjálfu sér segja að þau atriði megi skoða á hverjum tíma en ég vil þó vara við einu í þessari umræðu og það er sú tilhneiging að fækka hratt sóknarprestum í dreifbýli. Sú heimild sem hér er verið að taka inn er í rauninni að létta undir það ferli að fækka sóknarprestum í dreifbýli. Sóknarprestar eru mjög mikilvægir í allri samfélagsþjónustu í hinum dreifðu byggðum. Ekki er nú hin almenna félagsþjónusta of mikil þar og sóknarprestar gegna þar mjög margþættu og mikilvægu hlutverki ekki hvað síst en einnig í þéttbýlinu. En ég vil draga sérstaklega fram mikilvægi þeirra einmitt í hinum stóru og dreifðu byggðum. Þar gegna þeir afar mikilvægu samfélagshlutverki, menningarhutverki, fyrir utan trúarhlutverk sitt og að rækta kristindóminn, en ég vil alveg eins og ekkert síður draga hin verkefnin fram.

Verum minnug þess t.d. þegar sjávarþorpið Bíldudalur á Vestfjörðum stóð frammi fyrir þrengingum í atvinnulífinu, sem það reyndar stendur enn frammi fyrir. Þar voru lokanir fyrirtækja og uppsagnir á fólki í stórum stíl og byggðarlagið átti í miklum erfiðleikum. Samtímis var verið að leggja niður prestakallið þar. Nánast allir íbúar sendu áskorun til kirkjuyfirvalda um að fresta því og gera það ekki þá vegna þess að þá var einmitt hvað mest þörf á að sóknarprestur væri til staðar og veitti þann stuðning sem hann ætti í samfélagslegu tilliti við byggðarlagið. Því miður var það að engu haft.

Ég vil láta það koma fram að hlutverk presta, hlutverk þjóðkirkjunnar hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, er mjög mikilvægt hvað varðar samfélagslega þætti og menningarlega arfleifð sem við bæði erum að varðveita og líka að gera sýnilega, halda fram, rækta o.s.frv. Og þó að færa megi rök fyrir því að vægi starfsemi þjóðkirkjunnar eins og annarra eigi að færast allt inn þar sem þéttbýlið er mest og fjöldinn eigi að ráða þar ferð, þá vil ég líka draga fram þetta vægi sem ég nefndi, mikilvægi þjóðkirkjunnar og prestanna úti um hinar dreifðu byggðir í samfélagslegu og menningarlegu tilliti. Ég vil að farið sé varlega í að veikja stöðu dreifbýlisins og prestanna í dreifbýlinu með því að ýta undir möguleika eða létta undir það ferli að fækka þeim. Ég tel að skoða eigi þessar breytingar með varúð. Þjóðkirkjan er ein af elstu stofnunum þjóðfélags okkar og fara á varlega í að breyta skipan hennar.