132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Þar er m.a. lagt til að lögfest verði sérstök refsiþyngingarástæða þegar náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa aukið á grófleika verknaðar, þ.e. þegar um heimilisofbeldi er að ræða. Frumvarpið er liður í aðgerðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins gegn heimilisofbeldi.

Ég ákvað fyrir u.þ.b. ári að leggja aukinn þunga á aðgerðir gegn heimilisofbeldi til að bregðast við ábendingum sem mér höfðu borist og þeirri umræðu sem spunnist hafði um þau mál. Einnig lögðu frjáls félagasamtök lóð á vogarskálarnar þegar þau tóku sig saman síðastliðið vor og beindu fjölda tilmæla til stjórnvalda um gerð heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi í kjölfar 16 daga átaks. Tók ég þær tillögur strax til athugunar sem að mínu ráðuneyti sneru. Nú er annað slíkt átak hafið og óska ég aðstandendum þess til hamingju með það um leið og ég óska þeim velgengni í starfi sínu.

Í dómsmálaráðuneytinu er þannig nú þegar verið að vinna að hertum aðgerðum gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi. Fyrir utan það frumvarp sem ég mæli fyrir nú og kem nánar að á eftir vil ég nefna að ég fól ríkislögreglustjóra að setja verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu mála er varða heimilisofbeldi. Þær hafa nú verið gefnar út og eru birtar sem fylgiskjal með frumvarpi því sem nú er hér til umræðu.

Í þriðja lagi hef ég falið Ragnheiði Bragadóttur prófessor að endurskoða ákvæði almennra hegningarlaga um nauðgun, kynferðisbrot gegn börnum og vændi. Verður frumvarp þess efnis lagt fram síðar í vetur.

Í fjórða lagi er löggjöf um vændi og mansal sérstaklega til umræðu í starfshópi skipuðum af dómsmálaráðherra.

Í fimmta lagi er til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu hvaða lagabreytinga sé þörf vegna fullgildingar nýs Evrópuráðssamnings gegn mansali.

Í umræðunni síðasta vetur voru uppi raddir um að gera þyrfti heimilisofbeldi refsivert og setja þyrfti sérstakt ákvæði um það í almenn hegningarlög. Ég hef ávallt lagt á það áherslu að ofbeldi, hvort sem er innan veggja heimilisins eða utan þess, sé refsivert. Ég tel því nauðsynlegt að bent sé á lagaleg úrræði til lausnar vandanum, að lagaleg rök liggi fyrir, að íslensk lagahefð fái að ríkja einmitt í því skyni að gera hin lagalegu úrræði virk.

Á þeim grundvelli beindi ég því til refsiréttarnefndar að hún gæfi álit á því hvort setja bæri í almenn hegningarlög refsiákvæði þar sem heimilisofbeldi yrði lýst sem sérstökum refsinæmum verknaði eða hvort áfram skyldi stuðst við hin almennu líkamsmeiðingarákvæði 217. og 218. gr. laganna. Jafnframt fór ég fram á það við nefndina að teldi hún ástæðu til að lýsa sjónarmiðum um önnur atriði þessa máls væri óskað eftir að þau sjónarmið yrðu kynnt.

Herra forseti. Á grundvelli álits refsiréttarnefndar legg ég nú þetta frumvarp fram. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði í 70. gr. almennra hegningarlaga þar sem verði að finna refsiþyngingarástæðu þegar náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa aukið á grófleika verknaðar. Um yrði að ræða heimild til að hækka refsingu innan lögmæltra refsimarka viðkomandi refsiákvæðis með sama hætti og nú er gert á grundvelli þeirra heimilda sem koma fram í 1. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Telja verður að ákvæði af þessu tagi sé til þess fallið að beina sjónum dómara að nánum tengslum geranda og brotaþola þegar kemur að því að ákvarða refsingu fyrir brot á gildandi refsilögum. Þannig þurfi dómari ávallt að leggja á það mat og rökstyðja í forsendum sínum hvort náin tengsl geranda og brotaþola hafi haft einhver áhrif við ákvörðun refsingar.

Í öðru lagi er lagt til að ákvæði 1. mgr. 191. gr. almennra hegningarlaga verði fellt brott en í stað þess komi í hegningarlögin ný grein, 233. gr. b, og telja verður að markmið að baki 1. mgr. 191. gr. almennra hegningarlaga sé einkum að vernda friðhelgi og æru einstaklinga í samskiptum við aðra innan fjölskyldu einstaklingsins. Ljóst er hins vegar að refsivernd ákvæðisins hefur ekki verið virk í réttarframkvæmd frá gildistöku laganna. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum að þörf sé á að vernda einstaklinga betur en áður gegn afbrotum nákominna í skjóli hjónabands og fjölskyldu í rúmri merkingu þess orðs, er í frumvarpinu gerð tillaga um að í stað fyrrnefndrar 1. mgr. 191. gr. komi nýmæli sem hefur það að markmiði að gera þá refsivernd gegn stórfelldum ærumeiðingum þannig að raunhæfara sé að ná þeim refsiréttarlegu og réttarpólitísku markmiðum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar í þessu sambandi.

Í fylgiskjali með frumvarpinu má, eins og ég hef áður nefnt, finna nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.