132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12% í tveimur áföngum á næstu tveimur árum.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu hefur verið samið um 2% hækkun á mótframlagi vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði í tveimur áföngum, eða úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og síðan úr 7% í 8% frá og með 1. janúar 2007. Þessi hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða, sem lögð er til hér er til samræmis við þær breytingar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Með umræddum breytingum er stefnt að því að bæta starfsumhverfi lífeyrissjóða og laga starfsemi þeirra að breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði í því skyni að auðvelda þeim að sinna því hlutverki sínu að ná sem mestri ávöxtun á fjármunum sínum með sem minnstri áhættu.

Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fela í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða og breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Í II.–V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sérlögum um einstaka lífeyrissjóði til samræmis við þá hækkun á lágmarksiðgjaldi sem fjallað er um í I. kafla frumvarpsins. Enn fremur eru lagðar til orðalagsbreytingar sem miða að því að gera ákvæði umræddra lagabálka um greiðslu lágmarksiðgjalds efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.