132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[18:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hafi síðasti ræðumaður haft lítinn tíma hef ég enn styttri tíma ef sú áætlun á að standast að greiða hér atkvæði klukkan sjö um þessi mál. En það kemur svo sem ekki að sök, ég ætlaði ekki að setja á langa ræðu um þetta mál þó að ég sé sannarlega sammála því að það sé margt sem hér heyrir undir sem full ástæða væri til að ræða rækilega. Frumvarpið í sjálfu sér er ekki ýkja flókið. Hægt er að átta sig á því og taka afstöðu til þess út af fyrir sig. Það felur fyrst og fremst í sér það sem hæstv. ráðherra fór yfir og gert var að umtalsefni áðan, þ.e. að hækka verulega gjaldtökuna til Fjármálaeftirlitsins þar sem annars stefni í hallarekstur eða aukinn hallarekstur á stofnuninni. Hér er gefið dálítið hressilega í því að hækka á rekstrarkostnaðinn milli ára um meira en 100 millj. kr., um tæpan þriðjung miðað við það sem hann er áætlaður á yfirstandandi ári eða var a.m.k. áætlaður samkvæmt áætlun upp á liðlega 300 millj. kr. og vel yfir 400 milljónir á næsta ári.

Að sjálfsögðu þarf Fjármálaeftirlitið að hafa traustan fjárhag og geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki, enginn deilir um það. Nú ætti það að vísu að vera svo ef gjaldstofninn hefði verið sæmilega skynsamlega út fundinn á sínum tíma að aukin umsvif í fjármálaheiminum skiluðu Fjármálaeftirlitinu sjálfkrafa auknum tekjum og þetta héldist í hendur. En auðvitað geta komið upp þær aðstæður, ný verkefni af einhverjum toga eða breytingar sem gera það að verkum að þetta samræmi haldist ekki að fullu og þá það. En mér finnst það kannski ekki vera neitt sérstaklega vel rökstutt þótt farið sé yfir þessi verkefni hér.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum verið þeirrar skoðunar að efla bæri Fjármálaeftirlitið, það hafi verið of veikt og það hafi ekki verið nógu sjálfstætt í störfum og við höfum flutt tillögur um að það yrði flutt undir Alþingi, það yrði eflt m.a. með því og sjálfstæði þess undirstrikað og það aukið að það starfaði í skjóli Alþingis. Sú staðreynd var nefnd áðan að það væru eftirlitsaðilarnir sem greiða kostnaðinn, það er vissulega Alþingi sem ákveður það, en það væri kannski enn þá betra ef skilið væri enn rækilegar á milli viðfangsefnanna og starfseminnar með því að ráðuneytið kæmi þar hvergi að málum heldur væri það Alþingi sem tryggði starfsskilyrði Fjármálaeftirlitsins með löggjöf og með því að fóstra það í skjóli sínu svipað og Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Það eru ýmis rök fyrir því að það gæti verið skynsamlegt fyrirkomulag og að það væri heppilegra líka fyrir ráðuneytið sjálft að vera ekki tengt við þau mál og hafa þau ekki með höndum.

Mér hefur fundist að Fjármálaeftirlitið væri of mikið í því að bregðast við þegar orðnum atburðum á fjármálamarkaðnum og vera með aðfinnslur og setja kannski ofan í þegar allt er um garð gengið og búið og gert í staðinn fyrir að reyna að vera helst á undan og með fyrirbyggjandi ráðstafanir og ef ekki þá a.m.k. samsíða atburðunum þannig að það gæti tekið á þeim þegar þeir gerast en ekki rannsaka þá eftir á. Það hefur því miður allt of mikið verið niðurstaðan. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að ekki hafi verið búið nægjanlega vel að starfseminni og menn hafi einfaldlega ekki verið nógu öflugir. Vöxtur fjármálaheimsins hefur auðvitað verið mikill og hann skilar þá tekjunum jafnt og þétt inn í framhaldinu og það kann líka að einhverju leyti að skýra af hverju Fjármálaeftirlitið hefur oft viljað vera eftir á að bregðast við þegar orðnum hlutum, þegar þörfin væri eiginlega alveg hin gagnstæða, að Fjármálaeftirlitið gæti kortlagt hvert væri verið að stefna, út á hvaða braut hlutir væru að þróast og brugðist við því fyrir fram. Til dæmis þegar umsvif fjármálastofnananna stórjukust hvað varðar kaup og sölu á fyrirtækjum. Það er ekkert óskaplega langt síðan viðskiptabankarnir fóru út í það yfirleitt að fara að láta til sín taka í þeim efnum, enda hefur nú reyndar verið umdeilt allan tímann hvort þeir hafi fullnægjandi lagaheimildir til þess að hegða sér þar eins og þeir gera, vegna þess að samkvæmt lögunum er það ekki hlutverk t.d. viðskiptabanka að kaupa og selja fyrirtæki. Nei, það er að taka við innlánum og veita fjármálaþjónustu og útlán, auðvitað veita fyrirtækjum ráðgjöf og þjónusta þau en ekki premíalt að vera gerandinn í kaupum og sölum á fyrirtækjum. Þá hengja menn sig á það að túlka mjög rúmt heimild sem er til þess að vera þátttakandi í einhvers konar endurskipulagningu eða fjárhagslegri umbreytingu fyrirtækja. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þarna ætti að skilja á milli og um það höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutt frumvörp.

Eitt af því sem gerir viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins mjög snúin er þetta samkrull almennrar viðskiptabankaþjónustu og síðan fjárfestingabankastarfsemi og í raun reksturs. Það munar ekki miklu að bankarnir á köflum hegði sér hreinlega eins og fyrirtæki sem er byggt upp miðað við það að hagnast á kaupum og sölu fyrirtækja, fyrirtækjafjárfestir eða fyrirtækjaumbreytingafjárfestir gæti það heitið. Það er stór hluti af veltu ónefndra deilda viðskiptabankanna nú hin síðustu missiri. Mætti ýmislegt um það segja.

Tvennt í viðbót, frú forseti. Það fyrra er að ekki er nefnt hér til rökstuðnings auknum fjárveitingum til Fjármálaeftirlitsins — það ég best fæ séð eftir frekar lauslegan lestur á þessa vísu, ekki er boðið upp á mikið annað þegar málin koma fyrir á færibandi — ekki er nefnt að Fjármálaeftirlitið þurfi að efla sig til þess að fara yfir áhættumatið og áhættugrunninn í íslenska fjármálakerfinu til þess að vera vel á varðbergi og jafnvel fara í sérstakar ráðstafanir til að kanna hvort ekki þurfi að huga betur að áhættumati í bankakerfinu og meta hvaða áhrif á greiðslugetu fjármálakerfisins og fjármiðlunargetu þess snöggar breytingar, t.d. á gengi krónunnar eða lækkun fasteignaverðs gætu haft. Ég hefði alveg eins fagnað því og viljað leggja því lið mitt að Fjármálaeftirlitið fengi aukna fjármuni og gæti ráðið starfsmenn til að vera vel vakandi í þessum efnum og geta eftir atvikum farið í sérstakar úttektir og könnun á þessu. Ekki þýðir að gera lítið úr því að mörg sömu hættumerkin eru uppi hér og voru í fjármálakerfum annars staðar á Norðurlöndunum á árunum um og fyrir 1990 þegar bankakreppan þar var í uppsiglingu. Auðvitað vona allir hið besta og við tökum ekki mark á neinum illa ígrunduðum lausafregnum frá útlöndum um okkar ágætu banka þó að þær veki athygli og síst ef menn þurfa að éta slíkt ofan í sig aftur eins og hin merka stofnun Bank of Scotland.

En við skulum horfast í augu við að hér eru mörg sömu hættumerki uppi. Hér hefur orðið gríðarleg fasteignabóla. Og hvað var það sem var mönnum einna skeinuhættast í bankakreppunum annars staðar á Norðurlöndunum? Jú, það var geysileg óraunhæf hækkun fasteignaverðs sem ýtir undir útlánaþenslu og sem gengur síðan snögglega til baka. Hér erum við með mikla áhættuþætti til viðbótar sem er gengi krónunnar sem er langt yfir öllum jafnvægismörkum eins og allir vita og deilt kannski helst um hvort lækka þurfi um 30, 35 eða 40 punkta til að það sé eitthvað sem hægt er að kalla jafnvægi. Þarna finnst mér að Fjármálaeftirlitið mætti vel eflast til að takast á við slík verkefni.

Síðan er það seinna atriðið og það varðar stöðu Fjármálaeftirlitsins vegna hinna miklu umsvifa bankanna erlendis, hinna miklu fyrirtækjakaupa og dótturfélagarekstrar þeirra á erlendri grundu. Nú verð ég að játa það á mig að ég hef svo sem ekki náð að grúska almennilega í því hvernig það kemur beinlínis út fyrir Fjármálaeftirlitið. Þó er alveg augljóst mál að það starfar í verulega breyttu umhverfi að þessu leyti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann eða ráðuneytið hafi farið ofan í saumana á því að það gæti verið að hluta til vandi Fjármálaeftirlitsins að það fái á sínar herðar verkefni, aukin verkefni sem ekki fylgi tekjur í sama mæli vegna þess að reikningsskil móðurfyrirtækjanna eru hér, samstæðuuppgjörið er hér, samstæðueftirlitið er hér en stofnanirnar greiða væntanlega eftirlitsgjöldin miðað við heimilisfang sitt, dótturfyrirtæki íslenskra banka í London o.s.frv. Þá er spurningin: Hvernig á að bregðast við þessu ef við erum að nálgast það að vera komin með eiginlega alveg, ég veit ekki hvort maður má segja afbrigðileg hlutföll eða a.m.k. mjög óvenjuleg hlutföll í því hvað hátt hlutfall veltu þessara stofnana er orðið erlendis og hvað efnahagsreikningur þeirra er orðinn skrýtinn að því leyti til að hann er geysistór og bólginn þegar samstæðan er tekin en af henni eru kannski ekki nema 30% eða jafnvel minna af veltunni innan lands. Meðaltalið er núna komið yfir 40%, þ.e. af veltu íslensku bankanna sem er erlendis. Það hefur stokkið upp úr 20% fyrir um þremur, fjórum árum í yfir 40% núna og ég veit ekki hvert það stefnir og sá bankinn sem er umsvifamestur erlendis er með þetta í 60–75% (JóhS: 50% …) Já, 50% af veltu allra bankanna? Nú þess þá heldur.

Þá er spurningin: Er þetta eitthvað sem þarf að taka á? Hvernig er þá þessu háttað? Greiða menn sérstaklega, er hægt að láta höfuðstöðvarnar vegna samstæðureikningsskilanna og eftirlitsins sem því fylgir greiða eitthvert sérstakt gjald af því sem er ekki bara prósenta af innlendu veltunni eða hvernig er hægt að takast á við það? Ef þessi þróun heldur svona áfram og þetta verða orðin 5% eða eitthvað af veltu bankanna sem verða hér heima, þá verða þeir bókstaflega búnir að sigra heiminn og svo til öll velta þeirra yrði í fjarlægum löndum og álfum og þá geta þessi hlutföll augljóslega orðið mjög skrýtin. Þau hafa náttúrlega snöggbreyst í þessum efnum. Því er spurning hvort eitthvað er hægt að líta á þetta.