132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[19:39]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með aðstoð nútímasamskiptatækni þ.e. SMS-skilaboðum, get ég nú í andsvari mínu svarað hv. þingmanni að það mun verða gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlagafrumvarpinu á sameiginlegum lið fjármálaráðuneytis og þaðan verður því deilt út á viðkomandi stofnanir. Það er ánægjulegt að geta með þessum hætti tekið tæknina í sína þjónustu, hæstv. forseti.

Tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga verða að sjálfsögðu sífellt umfjöllunar- og því miður eflaust deiluefni milli ríkis og sveitarfélaga. Við höfum komist að niðurstöðu um tilteknar breytingar sem skila sveitarfélögunum umtalsvert auknum tekjum á næstu árum. Það er ánægjulegt. Hvað verður í framtíðinni get ég ekki spáð fyrir um. Það sem ég legg hins vegar áherslu á er það að við höfum náð þeim árangri að sveitarfélögin munu á tilteknum tíma hafa einhvers staðar á bilinu 5–6 milljarða í auknar tekjur fram til ársins 2008 frá því sem nú er. Það tel ég að sé mikill áfangi, hæstv. forseti. Framtíðin verður svo að leiða í ljós hvernig þessum tekjulegu samskiptum verður háttað.