132. löggjafarþing — 33. fundur,  2. des. 2005.

Útbýting þingskjala.

[15:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Varðandi þær útbýtingar sem hér hafa verið lesnar upp á fundinum er um flestar þeirra það eitt að segja að það er eðlileg afgreiðsla á málum úr nefndum. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að haldinn sé útbýtingarfundur þannig að slík mál megi þá koma á dagskrá strax eftir helgi án þess að taka þurfi þau fyrir með afbrigðum. Hið sama gildir ekki um a.m.k. þrennt á þessum lista, ef mér heyrðist rétt, og þá á ég við í fyrsta lagi það að hér sé verið að útbýta gögnum til 3. umr. fjárlaga. Það er mjög skrýtið því að ég vissi ekki til þess að fjárlaganefnd hefði tekið fjárlagafrumvarpið fyrir milli 2. og 3. umr. eins og alltaf hefur verið gert. Ef til vill er hér um misskilning að ræða og sé svo leiðréttist það.

Varðandi hins vegar tvö frumvörp sem þarna voru á listanum er annars vegar um að ræða frumvarp um Matvælastofnun ríkisins hf. Það er auðvitað athyglisvert að nú skuli lagt af stað með opinberar stofnanir af því tagi sem hlutafélög. Enn þá meiri athygli mína vakti þó frumvarp til laga um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Ég vil spyrja forseta, bara til að það sé á hreinu, hvort ekki sé öruggt og því megi treysta að það mál verði ekki tekið fyrir hér fyrir jólahlé. Ef slíkt stæði til vildi ég mótmæla því strax og láta koma í ljós að það ylli miklum deilum ef menn ætluðu á allra síðustu sólarhringum þinghaldsins fyrir jól að fara af stað með slíkt eldfimt og mjög umdeilt mál. Ég held að hæstv. forseti hljóti að sjá í hendi sér að svo er málið vaxið og þess vegna vildi ég gjarnan fá það staðfest, sem ég vona, að ekki standi til að gera annað en að dreifa þessu máli fyrir jól.