132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Skýrsla um stöðu öryrkja.

[15:09]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku var kynnt skýrsla um örorku og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum sem unnin var m.a. fyrir samtök öryrkja. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann skýrsluna. Í þeirri skýrslu kemur fram að kjör öryrkja á Íslandi hafa dregist aftur úr kjörum annarra þjóðfélagshópa á síðustu tíu árum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að í lögum um málefni fatlaðra frá 1992 setja stjórnvöld sér það markmið að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi.

Það sem virðist hafa haft mest áhrif á stöðu og kjör öryrkja og reyndar aldraðra líka á þessu tíu ára bili er annars vegar sú aftenging launa og bóta sem var ákveðin við afgreiðslu fjárlaga árið 1996 og hins vegar sú skattstefna sem rekin hefur verið af stjórnvöldum. Þetta tvennt eru afdrifaríkustu þættirnir í því að öryrkjar hafa dregist aftur úr öðrum hópum í kjörum. Fram kemur að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann á landinu almennt á þessu tíu ára tímabili hefur hækkað um 50%, hjá einhleypum öryrkja og öryrkja í sambúð um 40% en öryrkja sem er einstætt foreldri aðeins um 30%. Það hefur gerst í því góðæri sem hér hefur ríkt á síðustu tíu árum að þessir hópar hafa dregist aftur úr öðrum sem er auðvitað algerlega ólíðandi. Þess vegna spyr ég, virðulegur forseti: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að bæta stöðu öryrkja?