132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Skýrsla um stöðu öryrkja.

[15:11]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Verið er að fara yfir þessa skýrslu á vegum forsætisráðuneytisins. Ég skal játa að þessar tölur komu mér nokkuð á óvart því það er staðreynd að kaupmáttur þeirra bóta sem ríkið greiðir hefur hækkað um 58% á síðustu tíu árum á sama tíma og kaupmáttur almennra launa hefur hækkað um 37%. Þetta hef ég fengið staðfest. Hins vegar liggur fyrir að greiðslur frá lífeyrissjóðum hafa verið að skerðast á undanförnum árum. Lífeyrissjóðirnir hafa ekki haft þá getu sem menn höfðu vænst til að standa undir örorkubótum og svo liggur líka fyrir að atvinnuþátttaka öryrkja hér á landi er með minnsta móti. Það er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál og verið er að því.

Hvað varðar skattamálin þá liggur það alveg fyrir, hv. þingmaður, að eftir því sem laun hafa hækkað hér á landi hafa að sjálfsögðu skattgreiðslur hækkað til opinberra þarfa, þ.e. í fjárhæðum talið. Hér hefur orðið gífurleg launahækkun undanfarinn áratug og það hefur orðið til þess að við höfum getað farið út í margvíslega hluti á vettvangi samneyslunnar, hvort sem það er til menntamála eða heilbrigðismála og líka til að hækka tryggingabætur.

Auðvitað má gera betur. Það liggur fyrir. Það má gera betur bæði gagnvart eldri borgurum og öryrkjum og það er eitt af því sem við hljótum ávallt að vilja bæta. Ástæðan fyrir því að hægt hefur verið að ganga í þá átt að hækka þessar bætur er hin mikla aukning þjóðartekna sem hér hefur verið á undanförnum tíu árum.