132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Skýrsla um stöðu öryrkja.

[15:13]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er vissulega rétt að stjórnvöld geta gert miklu betur og það er auðvitað áfellisdómur yfir þessari ríkisstjórn í því góðæri sem hér hefur verið og sem hún hefur státað sig mjög af á síðustu tíu árum. Að það skuli hafa getað gerst að öryrkjar og aldraðir dragist aftur úr öðrum í lífskjörum á þessu tímabili er þungur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og segir okkur bara að þetta er ríkisstjórn ójafnaðar. Það þýðir ekki að vitna í lífeyrissjóðina því aðeins helmingur öryrkja fær yfirleitt bætur úr lífeyrissjóðum. Hinir fá það ekki.

Það sem vegur þyngst í þessu, eins og ég sagði áðan, er annars vegar sú aftenging launa og bóta sem ákveðin var með stjórnvaldsaðgerð og hins vegar sú skattstefna sem hér hefur verið rekin sem hefur falist í því að lækka álagningarprósentuna í skattinum en láta skattleysismörkin ekki fylgja verðlagsþróun. Það gerir það að verkum að þeir sem verst eru settir greiða af launum sínum í skatt sem þeir gerðu ekki áður.