132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Skýrsla um stöðu öryrkja.

[15:16]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hann er oft sérkennilegur, sá málflutningur hjá hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliðum þegar kemur að því að þeir svari fyrir stjórnarstefnu sína að kalla eftir stefnu Samfylkingarinnar. Þeir tóku að sér að vera í ríkisstjórn og þeim ber að haga hlutum með þeim hætti að hér sé sanngjörn og réttlát stjórnarstefna.

Varðandi skattstefnu Samfylkingarinnar skal það sagt, svo að það sé alveg ljóst og það á að vera alveg ljóst, að það er tvennt sem við höfum lagt áherslu á, einmitt að hækka skattleysismörkin og lækka matarskattinn. Þessar tillögur fluttum við núna og þessar tillögur fluttum við í fyrra þannig að það á ekki að koma neinum á óvart.

Varðandi öryrkjana og þetta álag sem yngstu öryrkjarnir fá er ég hér með dæmi um 40 ára einhleypan öryrkja. Hann þarf að standa undir heimili og húsnæðiskostnaði og öllu sem 40 ára einstaklingi tilheyrir með engar aðrar tekjur en frá almannatryggingum. Hann fær að hámarki frá Tryggingastofnun 107 þús. kr. í nóvember 2005, greiðir 12.300 í skatta af heildartekjum sínum og heldur því eftir 94.700 kr. ár út og ár inn. (Forseti hringir.) Er þetta það sem hann á að lifa af í nánustu framtíð?