132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[15:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þá sérkennilegu stöðu sem uppi er í samskiptum ríkisstjórnar og Seðlabanka. Hæstv. forsætisráðherra hefur áður tjáð sig opinberlega, ekki síst á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í síðasta mánuði, um þá skoðun sína að engin þörf sé á frekari vaxtahækkunum. Það hefur verið þannig gert að ég hef orðað það svo að engu sé líkara en að hæstv. forsætisráðherra vilji segja Seðlabankanum fyrir verkum.

En nú er annað upp á teningunum þegar forsætisráðherra tekur sér það fyrir hendur að túlka ákvarðanir Seðlabankans um 25 punkta hækkun stýrivaxta sem stefnubreytingu sem hann fagni, hæstv. forsætisráðherra. Spyrja má: Síðan hvenær varð það hlutverk forsætisráðherra að gerast sjálfskipaður talsmaður og útskýrandi fyrir hönd Seðlabankans?

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, af því að ekkert í yfirlýsingu Seðlabankans sjálfs, rökstuðningi hans og þaðan af síður í útgáfu Peningamála, gefur tilefni til að ætla að Seðlabankinn sjálfur telji sig vera að breyta um stefnu: Í hverju telur hæstv. forsætisráðherra að stefnubreytingin sé þá fólgin? Er það í því að hverfa frá núgildandi verðbólgumarkmiðum? Er það stefnubreytingin sem forsætisráðherra fagnar, að Seðlabankinn slaki á, hleypi verðbólgunni í gegn eins og það er stundum kallað? En einmitt þeirri leið hafnar Seðlabankinn sjálfur skýrt og skorinort og leggur áherslu á að hann telji sig ekki vera að breyta um stefnu og telji áframhaldandi þörf fyrir mjög mikið aðhald.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Getur svona yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar eða forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra gert annað en að grafa undan trúverðugleika bankans? Er kannski leikurinn til þess gerður vegna ágreiningsins sem uppi er milli bankans og ríkisstjórnar, að ríkisstjórnin sé bara ákveðin í því (Forseti hringir.) að veikja Seðlabankann og grafa undan trúverðugleika hans með yfirlýsingum af þessu tagi?