132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[15:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og það var ekki hugmyndin með sjálfstæði hans að forsætisráðherra og ríkisstjórn afsöluðu sér því að hafa skoðun á málefni bankans eða hafa skoðun á efnahagsmálum. Mér finnst þetta með eindæmum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður krefst þess að forsætisráðherra og ríkisstjórn hafi enga skoðun á efnahagsmálum. Hvað á þetta að þýða?

Ég hef sagt og stend við það að ég hef ekki talið ástæðu til vaxtahækkunar af hálfu Seðlabankans núna. Ég hef hins vegar fagnað því að Seðlabankinn hefur farið mjög mildilega í þessa hækkun og hún er minni en flestir gerðu ráð fyrir. Ég tel það vera stefnubreytingu og menn mega hafa aðra skoðun á því. Seðlabankinn talar ekki um það núna í yfirlýsingum sínum að hann ætli sér að hækka vexti enn frekar. Það hefur komið skýrt fram í tilkynningum Seðlabankans að undanförnu. Mín vegna geta menn kallað það eitthvað annað en stefnubreytingu, það skiptir ekki máli, en ég tel að þessi ákvörðun Seðlabankans sé hógvær og ásættanleg við núverandi aðstæður, jafnvel þótt ég hafi haft þá skoðun að ekki hefði verið ástæða til að hækka vexti núna. Við það stend ég.

Ég vænti þess að hv. þingmaður geti samþykkt það að forsætisráðherra landsins hafi einhverja skoðun á efnahagsmálum. Hv. þingmaður á ekki að koma hér upp í tíma og ótíma og mótmæla því að forsætisráðherrann hafi skoðun og krefjast skoðanaleysis af honum.