132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[15:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er grundvallarmisskilningur. Ég vil endilega að forsætisráðherra og ríkisstjórn hafi skoðun á efnahagsmálum, en réttar skoðanir og skynsamlegar. Ég vil að forsætisráðherra og ríkisstjórn vinni með Seðlabankanum en ekki móti honum. Og það er mikill munur á því að lýsa almennum viðhorfum sínum til efnahagsmála, og þess vegna þó því að Seðlabankinn þurfi ekki að beita frekari vaxtahækkunum, og hinu að fara beint inn í ákvörðun Seðlabankans og reyna að útskýra hana á þann hátt sem gengur bersýnilega gegn vilja Seðlabankans sjálfs. Það er verið að reyna að barna þessa yfirlýsingu í áttina að því sem ríkisstjórnin vill en ekki Seðlabankinn.

Trúverðugleiki Seðlabankans í þessum efnum skiptir öllu máli, að markaðurinn hafi þá trú að Seðlabankinn sé vandanum vaxinn og geti tryggt aðlögun efnahagsaðstæðna í landinu með mjúklegum hætti að veruleikanum. Það er ekki deila um það að gengið er yfir jafnvægismörkum. Það er hins vegar mikil deila um það hvaða áhrif það hefur ef gengið tekur kollsteypur og það er það sem Seðlabankinn vill varast. Þess vegna eru ummæli hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) að mínu mati ábyrgðarlaus og utan hans hlutverks.