132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

3. fsp.

[15:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka þau svör sem komin eru en hefði gjarnan viljað fá svolítið nákvæmari svör um það hvort hæstv. ráðherra metur það svo að ríkissjónvarpið hafi staðið sig í stykkinu á árinu 2004 miðað við þessa áætlun og það sem af er árinu 2005. Ég fagna því ef hagur Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að það geti aukið textun á næsta ári og að ekki þurfi sérstaklega að gera ráð fyrir neinni fjárveitingu til þess. Ef ekki, þá geri ég ráð fyrir, miðað við svör hæstv. ráðherra, að ráðherrann beiti sér fyrir því að lagt verði til þessa fé, sérstaklega á næsta ári, eins og reyndar var gert á árinu 2003 þegar forsætis-, félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálaráðuneytin lögðu saman 4,5 millj. til að auka textun. Ég vonast til þess að það sé full alvara í því að fylgja þessu máli eftir.