132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

4. fsp.

[15:32]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umfjöllun bresku pressunnar undanfarnar vikur um aukna samþjöppun á matvælamarkaði þar í landi. Kveikjan að umræðunni er að stærsta matvörukeðja Bretlands, Tesco, hefur á undanförnum missirum jafnt og þétt aukið hlutdeild sína á matvælamarkaði og er nú með yfir 30%. Nánast þriðja hvert pund sem fer til matvælakaupa í Bretlandi fer í gegnum kassa Tescos. Þær þrjár keðjur sem koma í kjölfar Tescos hvað stærð varðar hafa markaðshlutdeild á bilinu 11,5–16,6% en samanlögð markaðshlutdeild fjögurra stærstu keðjanna er um 74%. Raunveruleikinn er sá að aukið umfang stórverslanakeðjanna hefur leitt til þess að 20% sjálfstæðra matvælaverslana í Bretlandi hafa lagt upp laupana á síðustu fjórum árum sem samsvarar um 50 verslunum í viku hverri. Umræðan í Bretlandi er á þann veg að staða Tescos á matvælamarkaði sé á góðri leið með að leiða til tæknilegrar einokunar miðað við markaðshlutdeild fyrirtækisins. Yfirburðastaða keðjunnar geri henni kleift að standa fyrir undirboðum og óheilbrigðum verslunarháttum sem til lengri tíma leiði til minna vöruvals og stríði gegn hagsmunum neytenda. Nefnd þingmanna í breska þinginu vinnur nú að úttekt á stöðu matvælamarkaðarins. Kallað er á opinbera stefnumótun um hvernig eigi að taka á breyttum aðstæðum á matvælamarkaði og hvernig beita megi samkeppnisreglum til að spyrna gegn þessari þróun, t.d. með kröfu um að keðjan selji hluta verslana eða þeim bönnuð kaup á verslunum til að auka hlutdeild sína enn frekar.

Þessi umræða er athyglisverð fyrir okkur Íslendinga, ekki síst í ljósi þess að hér á landi hefur ein matvörukeðja yfir 60% markaðshlutdeild á matvörumarkaði. Ef Bretar hafa áhyggjur af því að ein keðja hafi 30% og fjórar stærstu keðjurnar hafi samanlagt 74% markaðshlutdeild, hvað segja stjórnvöld og almenningur um stöðuna hér á landi og áhrif á almenna hagsmuni?

Af þessu tilefni varpa ég fram eftirfarandi spurningu til hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hæstv. viðskiptaráðherra í ljósi umræðna í breskum fjölmiðlum um aðgerðir til að bregðast við markaðsráðandi stöðu fyrirtækja á breskum matvælamarkaði ástæðu til að grípa til sambærilegra aðgerða hér á landi í ljósi þeirra aðstæðna sem hér ríkja?