132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[15:46]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason heldur uppteknum hætti og reynir ítrekað að finna einhvern ágreining á milli ríkisstjórnarflokkanna í loftslagsmálum. Ég er alveg undrandi á þessum málflutningi. Stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi er skýr og hefur verið það lengi. Hún byggir á rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 1993. Ísland er einnig aðili að Kyoto-bókuninni frá 1997 sem tók gildi 16. febrúar á þessu ári. Það var ekki ljóst fyrr en þá að svo yrði. Skuldbindingartímabil hennar er frá árinu 2008–2012 og skuldbindingar okkar felast í því annars vegar að almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda aukist ekki meira en um 10% frá árinu 1990 og hins vegar fela þær í sér að losun koltvíildis frá nýrri stóriðju eftir 1990 aukist ekki meira en um 1,6 milljónir tonna árlega að meðaltali á skuldbindingartímabilinu.

Sé litið til ákvæða Kyoto-bókunarinnar og almennra heimilda Íslands er samdráttur gróðurhúsalofttegunda um 6% frá árinu 1990. Ekkert bendir til annars en að við verðum innan heimildanna sem er mun betri staða en mörg önnur ríki standa nú frammi fyrir. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða sem stuðla að því að við getum staðið við skuldbindingar okkar gagnvart Kyoto-bókuninni og byggjast þær á stefnumörkun í loftslagsmálum sem samþykkt var í ríkisstjórn 2002. Það hefur verið ágæt sátt í þjóðfélaginu um þá stefnumótun og það hefur verið ágæt sátt á Alþingi líka um þá stefnumótun.

Um einstakar aðgerðir sem farið hefur verið út í má nefna að opinber gjöld á umhverfisvæna bíla hafa verið lækkuð í tveimur áföngum, síðast nú í vor. Olíugjald hefur verið lagt á dísilbíla í stað þungaskattsins til að hvetja til notkunar þeirra en þeir eyða minna eldsneyti en bensínbílar. Sorpa hefur dregið úr metanútstreymi með því að vinna hauggas í Álfsnesi og landsáætlun stjórnvalda um meðferð úrgangs á að stuðla að minni lífrænum úrgangi til urðunar en urðun sláturúrgangs verður bönnuð frá 1. janúar (Gripið fram í.) 2009. Það mun draga úr metanlosun. Íslensk stjórnvöld hafa stutt við rannsóknir á loftslagsvænni tækni, svo sem nýtingu vetnis og verkefnis fyrirtækisins Marorku sem vinnur að því að draga úr orkunotkun skipa. Þá hefur ríkisstjórnin veitt 450 millj. kr. í sérstakt bindiátak kolefnis í skógrækt og landgræðslu.

Síðast en ekki síst vil ég í þessu sambandi nefna að Ísland hefur lagt áherslu á nýtingu endurnýjanlegrar orku. Við höfum m.a. lagt mikið af mörkum við að kynna nýtingu jarðvarma fyrir öðrum þjóðum sem ég tel afar mikilvægt og jákvætt framlag af okkar hálfu því að hundruð milljóna manna gætu nýtt jarðvarma í stað jarðefnaeldsneytis til upphitunar og raforkuframleiðslu.

Nú stendur yfir 11. aðildarþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem jafnframt er fyrsti aðildarríkjafundur Kyoto-bókunarinnar. Þar er rætt um alþjóðlegar aðgerðir gegn útstreymi gróðurhúsalofttegunda og það fer ekki á milli mála að um mikilvægt málefni er að ræða fyrir alla heimsbyggðina. Umhverfisráðherra Kanada, Stéphane Dion, sem er forseti þingsins, hefur sent bréf til þátttakenda þar sem hann lýsir viðhorfum sínum til viðfangsefnanna sem fyrir liggja og væntingum um árangur af viðræðunum. Þetta byggir hann á samræðum sem hann hefur átt við fulltrúa um 40 ríkja á síðustu mánuðum til undirbúnings þeirra funda sem nú standa yfir. Umhverfisráðherra Kanada telur meginviðfangsefnið vera þrenns konar, í fyrsta lagi að hrinda ákvæðum Kyoto-bókunarinnar í framkvæmd með nánari útfærslu þeirra, í öðru lagi að styrkja Kyoto-bókunina og loftslagssamninginn með ákvörðunum um framkvæmd og fjármögnun aðgerðaáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum og um hreinni þróun sem gerir ríkjum kleift að fá metin loftslagsvæn verkefni í þróunarríkjunum og í þriðja lagi að þoka alþjóðlegu samningaferli um loftslagsmál, sérstaklega hvað varðar spurninguna um hvað tekur við eftir að fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto lýkur 2012, fram á veginn með pólitískri yfirlýsingu um grundvöll nýrra viðræðna um loftslagsmál ásamt tímasetningu slíkra viðræðna.

Þetta getum við Íslendingar að sjálfsögðu stutt allt saman af heilum hug og það er alveg ljóst að þær viðræður munu að sjálfsögðu byggja bæði á loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni. Í því munum við taka þátt.