132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[15:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þær áherslur sem við framsóknarmenn lögðum í umhverfismálum á síðasta flokksþingi okkar í vor eru einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á að Íslendingar beiti sér fyrir því að sem flest ríki staðfesti Kyoto-bókunina. Í öðru lagi leggjum við áherslu á að Íslendingar beiti sér fyrir því að loftmengunarsáttmáli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar verði staðfestur enda er þar um mikið hagsmunamál að ræða eins og sést af því að hvert meðalstórt flutningaskip getur losað brennistein á við allan bílaflota Íslendinga. Í þriðja lagi leggjum við áherslu á að draga úr þeirri loftmengun sem hefur áhrif á lífríki og lífsgæði á Íslandi.

Ég get ekki betur heyrt en að þær áherslur sem hæstv. umhverfisráðherra lagði hér fram af sinni hálfu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hljómi mjög vel saman við þær áherslur sem við höfum lagt á okkar flokksþingi þannig að tal um að ágreiningur sé uppi meðal stjórnarflokkanna í þessu máli getur ekki stuðst við nein rök sem haldbær eru.

Virðulegi forseti. Menn velta fyrir sér spurningunni: Hvað gerist að loknu fyrsta skuldbindingartímabilinu? Við verðum að hafa í huga að það magn af gróðurhúsalofttegundum sem losað er út í andrúmsloftið á Íslandi mun vaxa úr 11 tonnum á hvert mannsbarn upp í 16,8 þegar fullnýttar eru allar undanþáguheimildir í Kyoto-bókuninni. Ég held að það verði afar þungsótt fyrir Íslendinga að sækja um frekari heimildir og ég held að Íslendingar ættu að hugsa sig vandlega um áður en þeir leggja út á þá braut. Ég held að við séum komnir býsna hátt í þessum efnum með því að nýta þá heimild sem við höfum og eigum að ákveða næstu skref ákaflega varlega þaðan í frá.