132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[15:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu um umhverfismálin. En ég verð að segja að í þetta skiptið finnst mér umræðan um þessi mál dálítið hysterísk á köflum og ekki mjög yfirveguð. Það er einhvern veginn þannig með þennan málaflokk að sumir þeirra sem láta hann sig varða falla oft í þá gryfju að mála skrattann á vegginn og gerast heimsendaspámenn þegar kemur að málefnum náttúrunnar. Mér finnst hv. málshefjandi að sínu leyti falla í þá gryfju þegar hann talar um vá af völdum loftslagsbreytinga.

Auðvitað ber okkur Íslendingum að fylgjast vel með þróun umhverfisins. En ég kannast ekki við þessa vá sem hv. þingmaður talar um og ég sé ekki að að okkur Íslendingum eða jarðarbúum steðji vá vegna breytinga á loftslaginu og ég kannast ekkert við að almenningur upplifi hana frekar en ég. Umhverfismálin eru mikilvægur málaflokkur sem varðar okkur Íslendinga miklu og þar gegnir sama máli um loftslagsbreytingar og aðra þætti umhverfisins.

Úr því að hv. þingmaður spyr hvaða vísindagrunn stjórnvöld á Íslandi telji vera undir kenningum um loftslagsbreytingar þá tel ég fyrir mitt leyti að þær byggi á afar ótraustum vísindalegum grunni. Ekki þarf nema lesa þær rannsóknir og skýrslur sem liggja fyrir um þessi mál til þess að komast að þeirri niðurstöðu. Það kemur t.d. fram í niðurlagi loftslagsskýrslu Norðurskautsráðsins frá 2004 að þær, þ.e. niðurstöður þeirra, byggi ekki á traustum grunni. Þær eru ekki yfir vafa hafnar. Það sama má segja um margar aðrar rannsóknir á sviði umhverfismála. Þær eru mjög óvissar. Ég get nefnt dæmi um rannsókn sem birtist í Nature fyrir stuttu síðan sem gaf til kynna að Golfstraumurinn hefði hugsanlega veikst um 30%. (Forseti hringir.) Það kemur líka fram í blaðinu að breytingarnar séu óþægilega nærri óvissumörkum og það sama segir í Science.

Það er ekkert svart og hvítt í þessu, hv. þingmaður, og við eigum að taka umræðuna á þeim forsendum.