132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[16:03]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að iðnbyltingin svokallaða hafi fært þjóðum heims mikla velsæld. Hins vegar má segja að skuggi fylgi þeirri ágætu byltingu en það er útblástur sem í rauninni hefur leitt þjóðir heimsins núna til að bregðast við og eitt form þess er Kyoto-samkomulagið.

Ef við lítum hins vegar 100 ár aftur í tímann hafa Íslendingar verið mjög framarlega þar sem við höfum innleitt vatnsorku og jarðvarma í staðinn fyrir kol og olíu sem voru nýtt í efnahagslífi okkar áður. Við erum þar til fyrirmyndar og höfum vakið athygli á alþjóðavettvangi fyrir það. Eigi að síður höfum við við útblástursvanda að glíma hér. Einn þriðji af þeim útblæstri sem fram fer á Íslandi stafar af bílum, af bruna í sprengivélum í bílum. Þar eru, frú forseti, sannarlega tækifæri. Þar hafa Íslendingar markað spor, þeir eru í forustu. Íslenska ríkisstjórnin er sú fyrsta í heiminum sem lýsir því yfir að hún vilji stuðla að því að vetni verði tekið upp sem orkuberi í íslensku efnahagslífi.

Með því móti hafa Íslendingar haft áhrif. Þessi yfirlýsing og þær framkvæmdir sem hér hafa orðið, m.a. með fyrstu almennu vetnisstöðinni í heiminum, og með ýmsum áætlunum sem uppi eru hafa Íslendingar markað spor. Þau hafa m.a. leitt til þess að fyrsta alþjóðlega samkomulagið um nýtingu vetnis var undirritað í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum og í bígerð er stofnun samtaka við Norður-Atlantshafið um nýtingu vetnis.

Með því móti má segja að Íslendingar séu í forustu til þess að ráðast á þann þátt útblásturs sem lýtur að samgöngum og sprengivélum og við, frú forseti, höfum markað þau spor, erum til fyrirmyndar og ríkisstjórn Íslands hefur stutt það með umræddri yfirlýsingu og með ráðum og dáð.