132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:39]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður kom inn á í upphafi ræðu sinnar var ég einn af þeim þingmönnum sem voru á þingsályktunartillögu varðandi mál sem í hnotskurn er það sama og hér er verið að ræða, frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Ég get í meginatriðum tekið undir það sem hv. þingmaður kom hér inn á um þau vandamál sem blasa við fjölskyldu sem stendur frammi fyrir þessum aðstæðum. Það er erfitt að vera heima með langveik börn og geta jafnvel ekki stundað atvinnu og þurfa nánast að vera vísað á guð og gaddinn.

Þess vegna vildi ég tala beint til hv. þingmanns hvort ekki væri rétt varðandi þau minnisatriði sem hv. þingmaður kom hér inn á, að halda þeim til haga og senda hv. nefndarmönnum félagsmálanefndar þannig að málin lægju nokkuð ljós fyrir áður en nefndarfundur verður haldinn. Þá gætu menn áttað sig betur á því hvað þetta getur orðið miklu yfirgripsmeira en hinn skrifaði texti hér er. Ég held að það væri mjög af hinu góða.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á um styrktar- og sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna þá hefur það venjulega verið þannig að þessum sjóðum hefur verið haldið utan við allar aðrar greiðslur og ég væri í hæsta máta ósáttur við ef breyting ætti að verða þar á, en vonandi skil ég það rétt að það eigi ekki að verða.

En ég vil þakka þingmanninum fyrir margar ágætar ábendingar. Þetta mál er hér til umræðu í fyrsta sinn og kannski ekki við öðru að búast en að einhverjir hnökrar séu á en mér finnst það eðlilegt og sjálfsagt að þeir séu skoðaðir tímanlega þannig að frumvarpið megi fara sem mest og best vandað frá hinu háa Alþingi.