132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[17:04]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og að hann ætli að beita sér fyrir því að félagsmálanefnd fái þær upplýsingar sem ég hef kallað eftir. Ég vil líka nefna að hæstv. ráðherra sagði að ákvæði frumvarpsins tæki ekki til viðbótarlífeyrissjóðssparnaðar sem mér finnst mjög óeðlilegt og ég tel að félagsmálanefnd eigi að skoða þann þátt. Hæstv. ráðherra nefndi heldur ekki það sem ég spurði hann um varðandi þá sem fá lífeyrisgreiðslur ef þær eru lægri en þær greiðslur sem eiga að koma til foreldranna, hvaða áhrif það hefur, og hvort eigi þá að greiða mismuninn eða hvort þeir sem eru með einhverjar lífeyrisgreiðslur úr Tryggingastofnun ríkisins fái þar enga aðstoð samkvæmt þessu lagafrumvarpi.

Síðan vil ég, virðulegi forseti, segja af því að ráðherrann sagði í máli sínu áðan að ekki væri og mundi ekki verða unnið áfram í samræmi við þá tillögu sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum árum, sem var almennt um að taka á og auka rétt foreldra vegna veikra barna sinna. Ég tel, virðulegi forseti, að hæpið sé að hæstv. ráðherra geti í ræðustólnum hunsað vilja Alþingis sisvona. Alþingi uppálagði honum með samþykkt tillögu héðan að auka ætti rétt foreldra vegna veikra barna sinna og að hafa ætti hliðsjón af því kerfi sem er á Norðurlöndum í því efni, þar sem er margfalt meiri veikindaréttur og síðan taka opinberir sjóðir þátt í þeim greiðslum. En mér finnst, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra geti hreinlega ekki sagt: Nei, við ætlum ekki að gera meira í málinu. Og ætla ekkert að gera með þann vilja Alþingis sem kom fram í þeirri tillögu sem var þverpólitísk, flutt af þingmönnum úr öllum flokkum og væntanlega samþykkt af öllu Alþingi. Ég fæ ekki séð, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra geti vísað málinu frá og hafnað að leggja þá vinnu í málið sem Alþingi fól honum sem framkvæmdaraðila málsins.