132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

Forsaga frumvarps þessa er sú að menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands hafa um nokkurt skeið kannað hvort ekki væri fengur að því að samnýta krafta þeirra stofnana sem sinnt hafa rannsóknum og miðlun þekkingar á sviði íslenskra fræða. Afrakstur af þeirri skoðun er frumvarp þetta þar sem lagt er til að sett verði á laggirnar ný stofnun á sviði íslenskra fræða sem mun bera heitið Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

Nýja stofnunin mun verða til við samruna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabókar Háskóla Íslands, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals. Tilgangur sameiningarinnar er að efla rannsóknarstarf og miðlun á sviði íslenskra fræða, auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu. Þá er gert ráð fyrir að margvíslegt hagræði verði af því að sameina vissa þætti í starfsemi þessara stofnana, einkum á sviði stjórnunar, tækni og þjónustu. Við samrunann skapast því skilyrði til þess að leggja aukna rækt við menningararf þjóðarinnar og íslenska tungu. Markmiðið er að til verði öflug háskólastofnun sem byggir á helstu undirstöðum íslenskrar menningar, tungumálinu og fornbókmenntunum.

Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að stofnunin verði háskólastofnun með sjálfstæðum fjárhag sem heyrir undir menntamálaráðherra en hafi náin tengsl við Háskóla Íslands. Framangreindar stofnanir eru samkvæmt gildandi lögum og reglum ýmist ríkisstofnanir eða stofnanir sem heyra undir Háskóla Íslands. Forstöðumenn þeirra eru því annaðhvort skipaðir af menntamálaráðherra eða ráðnir af rektor Háskóla Íslands.

Rekstrarform stofnananna er með ýmsum hætti en þær eiga það sameiginlegt að hljóta fjárveitingar á fjárlögum. Jafnframt því að leggja áherslu á að í 1. gr. frumvarpsins komi fram að stofnunin sé háskólastofnun þykir rétt að það sé sérstaklega kveðið á um að stofnunin hafi náin tengsl við Háskóla Íslands eins og nánar greinir í lögunum. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að hinar sameinuðu stofnanir samkvæmt frumvarpi þessu hafa flestar ákveðnum skyldum að gegna gagnvart stjórnvöldum sem snerta ekki starfsemi Háskóla Íslands. Þá verður jafnframt að taka mið af þeirri fjölgun menntastofnana á háskólastigi sem orðið hefur á undanförnum árum sem opnar möguleika fyrir hina nýju stofnun að auka samstarf og samvinnu við aðra háskóla og háskólastofnanir. Því byggist frumvarp þetta á því að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun heyri undir menntamálaráðherra, sem skipi forstöðumann hennar, en síðan verði þrír af fimm stjórnarmönnum stofnunarinnar sem ætlað er ráðgefandi hlutverk, tilnefndir af háskólaráði Háskóla Íslands.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins er ástæða fyrir heiti stofnunarinnar, Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, einkum skyldur stjórnvalda sem tengjast sáttmála Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum stofnunar Árna Magnússonar í vörslu og umsjón Háskóla Íslands. Því er lagt til að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun muni varðveita og sjá um þau handrit og skjalagögn sem hafa verið flutt til Íslands frá Danmörku samanber fyrrgreindan sáttmála.

Eins og hv. þingmenn þekkja liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. þar sem fram kemur að verja skuli samtals 1.000 millj. kr. til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Lagt er til í frumvarpinu að fjárframlögin skiptist þannig milli ára að verja skuli 300 millj. kr. til þessa verkefnis árið 2007, 300 millj. kr. árið 2008 og 400 millj. kr. árið 2009.

Hugmyndin að því að reisa byggingu fyrir þessar stofnanir á sér langan aðdraganda og hér er því um að ræða niðurstöðu af margra ára samræðu og samstarfi við stjórnvöld menntamála og þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Í hinu nýja húsnæði mun gefast færi á að búa handritunum umgjörð við hæfi þar sem skilyrði til varðveislu þeirra verða hin ákjósanlegustu og þannig mun gefast betra tækifæri á að skoða og fræðast um handritin.

Helstu breytingar sem er að finna í frumvarpinu frá núgildandi lögum eru að í stað dreifðra lagaákvæða og reglna er lagt til að einn lagabálkur fjalli um rannsóknir og miðlun þekkingar á sviði íslenskra fræða. Hér er átt við rannsóknir á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu, auk varðveislu og eflingar þeirra safna sem stofnuninni er falin eða hún á. Samkvæmt frumvarpinu mun Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun sinna þeim verkefnum sem þær stofnanir sem hér um ræðir hafa sinnt hver í sínu lagi. Því er lagt til að verkefni Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabókar Háskóla Íslands, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals færist í heild sinni yfir á hina nýju stofnun.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun verði jafnframt öðrum verkefnum skrifstofa Íslenskrar málnefndar sem menntamálaráðherra skipar. Lagt er til að Íslensk málnefnd muni áfram veita stjórnvöldum ráðgjöf um íslenska tungu en helstu nýmæli í störfum nefndarinnar eru að henni verði falið að semja ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út, auk þess að gera tillögu til menntamálaráðherra um málstefnu og álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Þetta eru nýmæli.

Ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims á því að Íslensk málnefnd mun því gegna veigameira hlutverki en áður og verður enn sem fyrr afar mikilvægur og breiður samráðsvettvangur um íslenskt mál. Gert er ráð fyrir að málnefndin skipti með sér verkum þannig að innra starf hennar verði með þeim hætti sem viðhaft hefur verið til þessa. Þá er einnig gert ráð fyrir að málnefndin taki þátt í norrænu og evrópsku samstarfi málnefndarmanna svo sem verið hefur og taki að öðru leyti þátt í að efla samstarf á fræðasviðum Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar samkvæmt d-lið 3. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta: „efla samstarf á fræðasviðum stofnunarinnar á innlendum og erlendum vettvangi og auka þekkingu á íslenskum fræðum meðal almennings og í alþjóðlegu fræðasamfélagi.“

Varðandi einstakar greinar frumvarpsins umfram það sem ég hef þegar farið yfir í framsöguræðu minni bendi ég á að samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skipar menntamálaráðherra forstöðumann stofnunarinnar að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Lagt er til að forstöðumaðurinn skuli hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar að mati þriggja manna dómnefndar. Eins og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins þykir rétt að gera þessi hæfisskilyrði vegna þess fjölþætta rannsóknarhlutverks sem stofnuninni er ætlað. Er það einnig í samræmi við gildandi lög um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi þótt þar sé gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn skuli jafnframt vera prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands.

Þá eru í frumvarpinu gerð skýr skil á milli ábyrgðarhlutverks forstöðumanns og ráðgjafarhlutverks stjórnar stofnunarinnar. Varðandi stjórnina bendi ég á að lagt er til að stjórnin sé skipuð fimm mönnum og skulu þrír þeirra skipaðir samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands og tveir án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnar. Með því að Háskóli Íslands tilnefni þrjá af fimm stjórnarmönnum er lögð áhersla á sterk tengsl stofnunarinnar við Háskóla Íslands eins og tekið er fram sérstaklega í 1. gr. frumvarpsins.

Þá er lagt til að við stofnunina verði tvö sérstök rannsóknarstörf. Annað verði tengt nafni og fræðilegri arfleifð Árna Magnússonar en hitt með sama hætti tengt nafni og fræðilegri arfleifð Sigurðar Nordals. Með þessu er fræðilegur grundvöllur stofnunarinnar treystur en jafnframt haldið til haga fræðilegri arfleifð þessara mikilvægu fræðimanna.

Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins við 7. gr. er við það miðað að þessar stöður verði a.m.k. fyrst um sinn mannaðar án þess að stöðugildum við hina nýju stofnun fjölgi umfram þau sem til staðar eru í þeim stofnunum sem sameinast í Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég legg sérstaka áherslu á að litið verði til þess við gerð fjárlaga fyrir fyrsta heila starfsár stofnunarinnar, þ.e. fyrir árið 2007, að skapa stofnuninni svigrúm til að ráða í þessi störf sérstaklega sem kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins og þar með undirstrikað mikilvægi rannsóknarhlutverks stofnunarinnar.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, benda á ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er snertir einkum starfsmenn þeirra stofnana sem frumvarp þetta fjallar um. Þar kemur fram að verði frumvarpið að lögum taki Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun við eignum og skuldbindingum Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Í því felst m.a. að starfsmenn þeirra stofnana verða starfsmenn Stofnunar íslenskra fræða – Árnastofnunar. Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun yfirtaki ráðningarsamninga starfsmannanna og að ekki verði um breytingar á ráðningarkjörum þeirra að ræða við sameininguna. Eftir sem áður gilda um starfsmennina ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

Þá verða samkvæmt ákvæðinu störf forstöðumanna þeirra stofnana sem sameinast lögð niður en lagt er til að öllum fráfarandi forstöðumönnum verði boðin rannsóknarstörf við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun og skulu þeir við ráðningu í þau störf halda öllum áunnum réttindum sínum úr fyrra starfi. Niðurlagning á störfum forstöðumanna Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabókar háskólans hefur þó ekki áhrif á ráðningu þeirra í störf prófessora við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Starf forstöðumanns hinnar nýju stofnunar verður auglýst og lagt er til að gengið verði frá skipun í það starf eigi síðar en 1. september 2006, þ.e. sama dag og lagt er til að lögin taki gildi.

Herra forseti. Ég hef rakið efni frumvarpsins í megindráttum en sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstakar greinar þess heldur vil ég vísa til frumvarpsins sjálfs og eftir atvikum til umfjöllunar í athugasemdum þess. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.