132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:19]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Áður en við hefjum umræðuna tel ég nauðsynlegt að fá skoðun hæstv. menntamálaráðherra á umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar segir að hugsanlegt sé að samþykkt þessa frumvarps valdi því að úr ríkissjóði þurfi að fara biðlaun að hámarki 30 millj. kr. Ég óska eftir því að vita hvaða biðlaun það eru. Ég les það þannig að átt sé við forstöðumenn sem geta neitað að taka nýja stöðu vegna þess að þær eru ekki hinar sömu og fyrir voru. Þar að auki geti laun hjá nýjum forstöðumanni numið 2 millj. kr. á þessu ári, samtals 32 millj. kr. Við skulum vona að svo fari ekki að forstöðumenn segi allir upp og þar að auki komi nýr forstöðumaður, og þetta gangi allt upp en það getur verið, segir í umsögninni.

Þarna eru 32 millj. kr. og fjármálaráðuneytið telur í þessari umsögn að hífa megi upp í þær með því að ganga á svokallað eigið fé, held ég að það sé eða jákvæðan höfuðstól, sem stofnanirnar eigi inni en hann nemur 8,4 millj. kr. og þá eru eftir 23,6 milljónir, ef af verður. Það telur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að hægt sé að fá á þessu ári vegna lækkaðs kostnaðar við stjórnsýslu og reksturs m.a. og væntanlega aðallega fækkun stjórnenda, stjórna og nefnda. Spurningin er fyrir utan þetta um forstöðumennina: Telur menntamálaráðherra að þetta sé raunhæf áætlun eða hefur menntamálaráðherra einhverjar aðrar ráðagerðir um það hvernig mæta á þessum kostnaði, ef af verður, eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur reiknað með?