132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að forstöðumennirnir komi til með að hætta að starfa við þessa nýju stofnun því að þetta frumvarp og þetta fyrirkomulag sem liggur fyrir þinginu hefur m.a. verið unnið í mjög náinni samvinnu og miklu samstarfi við alla forstöðumenn þeirra stofnana sem um ræðir. Ég ætla hins vegar ekki að gera athugasemdir við þau vinnubrögð sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins viðhefur í umsögn sinni þannig að hún kemur fyrir á pappírnum eins og hún er.

Ég sagði það reyndar áðan í framsögðuræðu minni að varðandi 7. gr. mun ég leggja til innan míns fjárlagaramma fyrir árið 2007 að styrkja stofnunina sérstaklega hvað varðar þessi tvö rannsóknarstöðugildi og útfærslu á þeim. Ég geri ekki ráð fyrir að frumvarpið leiði til þess að við stöndum frammi fyrir því að stofnunin þurfi að ganga á jákvæðan höfuðstól sinn. Við verðum líka að gera ráð fyrir að við sameiningu stofnunarinnar verði vonandi einhver hagræðing sem verði til bóta bæði fyrir innra og ytra skipulag og stjórnsýslu slíkrar stofnunar.