132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra virðist ekki hafa farið í gegnum umsögnina frá fjárlagaskrifstofunni vegna þess að hún getur engu svarað um það sem hún er spurð um. Ég spurði: Hvernig á að hífa þetta upp, hvaða peningur á að fara í þær 23,6 milljónir sem fjárlagaskrifstofan reiknar með að hugsanlega geti farið forgörðum, eins og ég skil það hjá menntamálaráðherra, vegna hugsanlegra uppsagna forstöðumanna og vegna þess að ráða þarf nýjan mann sem nemur 2 millj. kr.? Fjárlagaskrifstofan talar ekki um rannsóknarstöðurnar tvær. Ekki er um það að ræða, forseti, að verið sé að ræða um þær heldur segir fjárlagaskrifstofan að þetta megi gera fyrir utan jákvæða höfuðstólinn með því að lækka kostnað við stjórnsýslu og rekstur með fækkun stjórnenda, stjórna og nefnda.

Nú er það svo að stjórnendur, stjórnir og nefndir í þessum stofnunum fimm munu vera þannig að í Árnastofnun, þ.e. þeirri sem nú er, er svokölluð stjórnarnefnd og er sérstaklega kveðið á um það í lögum að hún sé launalaus. Íslensk málefnd er sín eigin stjórn. Við getum því ekki gert ráð fyrir að laun lækki hjá Íslenskri málnefnd, hún á að vera jafnstór og áður. Í lögum um Örnefnastofnun er engin stjórn þannig að engir stjórnendur, stjórnir og nefndir falla til hér til að lækka þennan kostnað. Í Orðabók Háskólans er vissulega stjórn og hún er líka til í Stofnun Sigurðar Nordals. Ég hef athugað hver sá launakostnaður muni vera við stjórnendur, stjórnir og nefndir sem þar er um að ræða og mér skilst að hann geti að hámarki orðið 50–100 þús. kr. á ári miðað við venjuleg stjórnarstörf og þó heldur minna, a.m.k. að venju í Orðabók Háskóla Íslands. Ég spyr: Er menntamálaráðherra reiðubúin til að koma til móts við þessa nýju stofnun hvað þetta varðar ef fara skyldi svo, eins og fjárlagaskrifstofan reiknar með, að það sé mínus upp á 23,6 millj. kr. og á móti séu aðeins 50–100 þús. kr. í þau stjórnarlaun sem fjárlagaskrifstofan ætlar að spara? Fyrir mér ber þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar vott um að hvorki hún né menntamálaráðuneytið hafi skoðað þetta mál ofan í kjölinn.