132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er lagt fram frumvarp um merkilegar stofnanir á merkilegu sviði, stofnanir sem eiga rætur sínar, hin elsta, að rekja til loka heimsstyrjaldarinnar og í raun og veru miklu lengra aftur ef við tökum forvera þeirra með ýmsum hætti, enda á að kenna hina nýju stofnun við Árna Magnússon sem er auðvitað á margan hátt við hæfi.

Ég tel að athugunarmál og umræðuefni við 1. umr., ef vel á að vera, og í menntamálanefnd þar á eftir séu m.a. eftirfarandi:

1. Markmið stofnunarinnar og undirbúningur sameiningarinnar.

2. Nafn og inntak stofnunarinnar og örlítið um íslenska menningarpólitík.

3. Umfang sameiningarinnar og aðila hennar.

4. Hugtakið háskólastofnun.

5. Tengsl stofnunarinnar við Háskóla Íslands, um námsskyldur sem henni fylgja, um stofnanir hugvísindadeildar og hvernig þær tengjast henni, um þróunina í íslenskuskor og víðar í hugvísindadeild.

6. Réttindi starfsmanna.

7. Stjórnskipulag í stofnuninni.

8. Innra skipulag stofnunarinnar.

9. Íslensk málnefnd og hvernig koma á málstöðinni fyrir í hinni nýju stofnun.

10. Rannsóknarstöðurnar sem kenndar eru við Árna Magnússon og Sigurð Nordal.

11. Rétt er að víkja að því hvernig málið ber að og huga að starfsstíl ráðherra og ráðuneytis hennar.

Í 12. lagi hefði ég viljað koma með bráðabirgðaniðurstöður við 1. umr.

Þetta tekst sjálfsagt ekki á 20 mínútum og kannski ekki á þeim 10 mínútum sem ég á hér að auki en það verður að hafa það, það er þá hægt að halda þeim umræðum áfram í nefndinni og við 2. umr. um málið einhvern tíma á vordögum.

Hugmyndin um að sameina stofnanir á sviði íslenskra fræða hefur verið á sveimi nokkra stund og er auðvitað góðra gjalda verð. Sumar af þessum stofnunum eru vanburða, hafa í raun og veru aldrei komist á legg og eru of litlar til að standa með reisn á eigin fótum, t.d. Örnefnastofnun. Gagnasöfn á þessum stofnunum geta samnýst, t.d. gagnasöfn Orðabókar Háskólans og Íslenskrar málstöðvar, og vonandi skapast tækifæri við sameiningu. Stofnunin yrði stærri og þróttmeiri eining sem hefur meira afl og burði til að rannsaka og hafa samskipti og veita þjónustu.

Það eru líka hættur við sameiningu, a.m.k. eins og hún er hér sett fram. Hætt er við ofstjórn og einstefnu ef vald forstöðumanns og stjórnar eða bara forstöðumanns er of mikið og sambýli þessara fimm stofnana í einni er auðvitað ekki sjálfsagt mál. Til dæmis verður að búa þannig um hnútana að lítil fræðasvið, ef svo má segja, sem nú eiga sér ákveðinn gróðurreit og skjól innan einhverra af stofnununum fimm eða deilda í þeim, týnist ekki eða lendi út undan.

Svo er það að nefna af okkar miklu reynslu undanfarin ár og áratugi af sameiningu fyrirtækja, eða sveitarfélaga og stofnana að misheppnuð sameining er oft verri en engin sameining. Það skiptir máli hvernig svona sameining er undirbúin. „Traustir skulu hornsteinar hárra sala“, sagði einn af þeim sem hlýtur að koma við sögu í þessum stofnunum. Það skiptir máli að hornsteinarnir séu: skýr markmið, að á undan hafi farið vandlegar athuganir, greining þeirra þarfa sem á að uppfylla, mat á kostum og göllum við sameininguna og leiðum að henni, hún hafi verið undirbúin með stjórnendum, starfsfólki og haghöfum öllum, gætt hafi verið samráðs og skapað traust í þeim ferli.

Tilgangur sameiningarinnar er nefndur í upphafi athugasemda frumvarps hæstv. menntamálaráðherra. Hann er tvíþættur, þ.e. annars vegar að efla rannsóknarstarf og miðlun og hins vegar að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu. En í raun og veru kemur hvergi fram hvernig eigi að efla þetta. Það er alveg óljóst í frumvarpinu fyrir utan það að þessi nýja stofnun verður stærri en hinar, a.m.k. einstakar þeirra, og það er von greinilega frumvarpssemjandans að sameiningin sjálf muni leiða til þess með einhverjum hætti að fræðileg ráðgjöf eflist, rannsóknarstarf og miðlun sömuleiðis.

Það er gert ráð fyrir öðrum tilgangi. Það er gert ráð fyrir að margvíslegt hagræði verði af því að sameina vissa þætti í starfsemi þessara stofnana, einkum á sviði stjórnunar, tækni og þjónustu. Eins og leitt var í ljós í andsvörum rétt áðan þá getur verið vafamál hvenær slíkt hagræði næst. Hvorki fjárlagaskrifstofan né hæstv. menntamálaráðherra virðast hafa nokkurn skilning á því að þegar rætt er um mikið stjórnarbákn á þessum stofnunum fimm þá er það minna en maður skyldi ætla. Það er þannig. Það er þannig vegna þess að stjórnendur þessara stofnana og starfsfólkið þar hefur kosið að eyða eins litlum tíma og eins litlum peningum og unnt er í þessi venjulegu hefðbundnu stjórnarstörf til að geta veitt þjónustu og rannsakað. Þess vegna er samanlögð stjórnarþóknun í þessum stofnunum fimm sú sem ég nefndi, þ.e. 50–100 þús. kr. á ári gróft áætlað. Ég efast ekki um að með góðum vilja megi ná einhverri hagræðingu og einkum þegar komið er í nýja húsið eftir fimm til tíu ár, t.d. á bókasafni. Eina verulega bókasafnið í þessum stofnunum er reyndar á Stofnun Árna Magnússonar. Miðað við það er í raun um smá söfn að ræða í Stofnun Sigurðar Nordals, í Örnefnastofnun og á Íslenskri málstöð og bókasafn Orðabókar Háskólans er mjög af öðru tagi en hjá Stofnun Árna Magnússonar. En ég efast ekki um að þarna megi ná fram hagræðingu.

Það er miklu óljósara hins vegar um tæknina vegna þess að sú tækni sem er notuð á þessum stofnunum er afar ólík eftir þörfum hverrar stofnunar um sig. Að leggja saman gagnasöfnin er auðvitað prýðilegt. En þá má líka minna á að nú þegar er verulegur gagnkvæmur aðgangur að gagnasöfnunum, t.d. hjá Orðabók Háskólans og Íslenskri málstöð. Það má ræða áfram um þetta en ástæða er til að spyrja ráðherrann hvernig hún fyrirhugi og hennar menn að efling rannsóknarstarfs, miðlunar og fræðilegrar ráðgjafar fari fram í hinni nýju stofnun, þ.e. hvernig það verði. Hver nákvæmlega er hagræðingin sem þeir menn sem hafa undirbúið þetta frumvarp búast við í a) stjórnun, b) tækni, c) þjónustu?

Sameining er eitt af tískuorðunum síðustu áratugi og ekki að ófyrirsynju. Við þekkjum eins og ég sagði áðan sameiningarferli nokkuð vel. Við höfum ýmsa reynslu af því. Við höfum góða reynslu og við höfðum slæma reynslu. Við eigum að vita líka hvernig á að varast vítin. Það er ástæða til að spyrja að því hvort sameiningarferlið hafi verið hafið með því að stofnanirnar, stjórnendur þeirra og starfsmenn, hafi talað saman, hvernig athugun hafi farið fram á því hvernig starfsemi hverrar stofnunar rúmast sem best í nýrri stofnun og hvaða tækifæri myndast við sameininguna. Ég spyr þess vegna menntamálaráðherra: Hvar eru þær rannsóknir og athuganir sem standa að baki þessu frumvarpi og hvert er hið skipulega starf á stofnununum fimm sem farið hefur fram vegna þessara sameiningarhugmynda?

Sérstaklega af því að menntamálaráðherra ræddi um að í þessari stofnun ætti að sinna íslenskri tungu, bókmenntum og sögu vil ég segja að íslensk fræði hafa reyndar verið nokkuð óljóst hugtak. Þegar þetta nafn var til í stjórnsýslunni a.m.k. þá var það í Háskóla Íslands þegar íslensk fræði voru þar námsgrein. Þetta var þannig námsgrein að menn lögðu fyrir sig einmitt þetta, tungu, þ.e. málfræði, bókmenntir og síðan sögu. Þessi fræðigrein eða námsgrein var aflögð á sjöunda áratugnum, að ég held árið 1965. Hún lifir að vísu enn í heiti fagfélagsins, Félags íslenskra fræða. En nú eru komin ný íslensk fræði sem menn geta tekið til meistaraprófs í Háskóla Íslands. Það eru hins vegar íslenskar bókmenntir plús íslensk málfræði en ekki saga. Þess vegna er ástæða til að spyrja um þetta sérstaklega: Er ætlunin að Íslandssaga eigi sérstakt rúm í þessari nýju stofnun og er ætlunin að rannsóknir nútímabókmennta eigi líka rúm í hinni nýju stofnun? Það er ekki ljóst. Þetta skiptir kannski ekki miklu máli. En máli skiptir þegar menn nota svona hugtök að allt sé með sem hugtakið tekur til, bókmenntir, tunga og saga, og að með notkun hugtaksins séu ekki útilokaðar aðrar greinar sem nú eru stundaðar innan veggja þessara stofnana fimm. Það má sérstaklega nefna að íslensk fræði í Stofnun Árna Magnússonar eru í raun almenn evrópsk miðaldafræði með útgangspunkti í bókmenntum, tungu og atburðum á íslenskum miðöldum. Við megum því ekki ganga þannig frá þessu að heitið íslensk fræði verði of þröngt.

Örlítið tel ég að verði að koma inn á nokkuð fornfálegan og þröngan skilning hæstv. menntamálaráðherra á hugtakinu íslensk menning. Nú eru menn búnir að deila um það lengi en í kringum 1930 mundu menn einmitt hafa sagt þetta sem segir í frumvarpinu, að helstu undirstöður íslenskrar menningar séu: a) tungumálið, b) fornbókmenntirnar. Auðvitað er þetta góðra gjalda vert. Tungumálið hefur skapað tilveru Íslendinga og án fornbókmenntanna værum við miklum mun fátækari. En íslensk menning er miklu fleira. Íslensk menning, jafnvel þó við tökum það bara sögulega, á líka við myndlist og tónlist sem menn héldu einu sinni að ekki hefði verið til. Hún á líka við byggingarlist og alls kyns fræðirit. Íslensk menning væri vissulega fátækleg án fornbókmenntanna en undirstöður hennar felast ekkert síður í síðari tíma bókmenntum, í bókmenntum frá því sem kallað er íslensku miðaldirnar, á 16., 17. og 18. öld, og í nútímabókmenntum okkar. Skilgreiningin er ekki góð. Mér finnst að með því að setja þetta í greinargerðina sé verið að gefa hinni nýju stofnun erindi sem er of þröngt og sem er of aldurhnigið og ekki hugsað frá grunni.

Um umfang sameiningarinnar er líka rétt fara nokkrum orðum. Það er skýringarlaust af þeim sem hér flytur frumvarpið af hverju um nákvæmlega þessar fimm stofnanir er að ræða. Það er ekki náttúrulögmál að það séu þessar fimm stofnanir. Þær eru, eins og hæstv. menntamálaráðherra rakti, mjög ólíkar og stjórnsýslustaða þeirra er líka mjög ólík. Höfuðsameiningin sem hér er um að ræða er auðvitað sameining Stofnunar Árna Magnússonar og Orðabókar Háskólans. Það er ekki óeðlilegt að Örnefnastofnun sé þar talin með. En það þarf sérstök rök fyrir því að Stofnun Sigurðar Nordals sé með í þessum pakka vegna þess að hún fjallar mjög um kennslu og er nátengd Háskóla Íslands. Ef til vill væri betra að hún væri áfram í háskólanum. Sameining Íslenskrar málstöðvar og stjórnar hennar, Íslenskrar málnefndar, og þessarar stofnunar skapar þegar veruleg vandræði sem fram koma beinlínis í frumvarpstextanum. Það er engin skýring í greinargerðinni eða ræðu ráðherrans af hverju um er að ræða þessar fimm. Það má spyrja áfram. Ef hér á að fjalla um íslensk fræði, af hverju er þá ekki þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins hér inni með allt sitt mikla gagnasafn sem fræðimenn á sviði íslenskrar tungu, bókmennta og sögu sækja mjög í? Af hverju er ekki handritadeild Landsbókasafnsins með í þessum pakka? Er það af einhverjum viðkvæmnisástæðum gagnvart Landsbókasafninu? Hún smellpassar inn í þessa nýju stofnun vegna þess sem þeir kannast við sem hafa þurft að eiga við handrit að þurfa að flakka milli enda háskólalóðarinnar, milli handritadeildar Landsbókasafns – háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar. Ein spurningin er því: Af hverju er hún ekki með? Hvar eru skýringarnar á því? Enn má spyrja t.d. um mannanafnanefnd sem er að vísu undir allt öðru ráðuneyti. En er ekki rétt að hún hafi hér skrifstofu á sama hátt og Íslensk málnefnd? En hér eru engar skýringar. Hér virðist ekki vera nein sérstök hugsun á bak við eða þá menn hafa kastað upp teningunum og hagað sér samkvæmt því sem uppi á þeim var þegar þeir komu niður.

Það er að styttast tíminn en að lokum gengur þetta nú sjálfsagt. Ég vil líka minnast á hugtakið háskólastofnun vegna þess að í greinargerðinni segir að markmiðið sé að til verði öflug háskólastofnun. Háskólastofnun þýddi það einu sinni í íslenskum lögum að um var að ræða stofnun innan Háskóla Íslands. Aðra fyllingu hefur orðið í raun og veru ekki. Til dæmis er Landsbókasafn – háskólabókasafn nú nefnt háskólastofnun án þess að þar sé í raun akademía, rannsóknir og skipulag fræðaverks með þeim hætti sem er í háskólum. Þess vegna er orðalag 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta: „... háskólastofnun ... [sem] hefur náin tengsl við Háskóla Íslands ...“, eiginlega upptugga eða tátólógía. Hvað þýðir í raun og veru hugtakið háskólastofnun í þessu frumvarpi? hlýt ég að spyrja hæstv. menntamálaráðherra. Ég held að við þurfum að rannsaka það í menntamálanefndinni hvort við ættum kannski frekar að segja hér rannsóknarstofnun á háskólastigi þannig að ljóst sé að rannsóknir eru höfuðhlutverk þessarar stofnunar eða þá kannski rannsóknarstofnun og fræðileg ráðgjafarstofnun, sem lýsti eðli starfsins betur en nú er.

Tengslin við Háskóla Íslands eru næsta umræðuefni mitt. Ég tel að úr því að þetta frumvarp kemur fram sé alveg feikilega mikilvægt að ítreka þessi tengsl við Háskóla Íslands. Það að stofnunin tengist sérstaklega Háskóla Íslands, sem útilokar auðvitað engan veginn samstarf við aðra háskóla, gefur stofnuninni mikilvæga kjölfestu og staðfestir sérstakt ábyrgðarhlutverk Háskóla Íslands gagnvart þessu fræðasviði. Alþingi er með því beinlínis að segja að Háskóli Íslands eigi að hafa forustu fyrir kennslu og rannsóknum í íslenskri tungu, bókmenntum og textafræði, hvernig sem maður skilgreinir nú innihaldið í hinni nýju Stofnun íslenskra fræða, og þessi nánu tengsl skuldbinda háskólann til þess, en þau skuldbinda líka stjórnvöld, Alþingi og framkvæmdarvaldið, til að gefa háskólanum færi á því að standa sig sem þessi forustustofnun. Það er annað en verið hefur undanfarið. Til dæmis hefur sífelldur niðurskurður veikt íslenskuskor Háskóla Íslands verulega. Kennurum hefur þar fækkað og námsframboð þrengst þannig að fyrir sjö árum, sem dæmi, voru 15 föst kennarastörf í íslenskuskor. Þau eru nú aðeins ellefu. Rúmur fjórðungur starfa þar hefur sem sé eyðst á þeim sjö árum sem hér eru tekin til samanburðar og það spáir ekki góðu um framhaldið. Það er líka óljóst hvernig samstarfi Stofnunar íslenskra fræða og hugvísindadeildar Háskóla Íslands verður háttað. Ástæða er til að skýra það nánar. Það er full ástæða til þess líka að minnast á þær rannsóknarstofnanir sem frumvarpshafi og greinargerðarsemjendur virðast ekki hafa haft hugmynd um að til séu innan hugvísindadeildar, nefnilega Bókmenntafræðistofnun, Málvísindastofnun og Sagnfræðistofnun. Þær eru reyndar að veslast upp úr fjárskorti. En þær eru þó til og innan þeirra átti að stefna að því að fram færi doktorsnám og að þar yrði aðstaða fyrir doktorsnema. Nú spyr maður: Á það að vera þarna eða á Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun að taka algjörlega við því hlutverki? Er búið að semja við háskólann um það eða á að leggja þessar þrjár stofnanir niður?

Réttindi starfsmanna eru sjötta umræðuefnið af tólf sem ég ætlaði að fara yfir. Um þau er það eitt að segja í bili að ég fagna því að frá þeim er gengið, virðist mér, tryggilega og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir það, vegna þess að það hefur ekki verið raunin við ýmsar breytingar að undanförnu, að þeir ganga beint yfir í hina nýju stofnun án nokkurrar viðkomu annars staðar. Þeir halda sem sé fullum réttindum sínum og í því felst m.a. að rannsóknarskylda þeirra helst í hlutföllunum 60 á móti 40. Þeir njóta sama akademíska frelsis og áður við rannsóknarstörf sín og í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um sérstakar siðareglur sem tryggi þeim fræðilegt sjálfstæði. Eina spurningin í þessu sambandi er: Hvernig verða tengsl starfsmannanna í nýju stofnuninni við háskólann? Teljast þeir vera í þeim tengslum við Háskóla Íslands að þeir hafi aðgang að sjóðum í Háskóla Íslands, þ.e. Sáttmálasjóði, Rannsóknasjóði og vinnumatssjóði svipað og starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar og Orðabókar Háskólans nú?

Ég á eftir að ræða ákaflega mikilvæga hluti og sérstaklega er það um Íslenska málnefnd og Íslenska málstöð. En ég vil að lokum þessarar ræðu segja að ég tel vera bæði plúsa og mínusa í þessu frumvarpi. Mér þykir undirbúningur þess ákaflega daufur af hálfu ráðherrans og, ef rétt er hjá ráðherranum, einnig af hálfu Háskóla Íslands, þ.e. ef líta á á þetta frumvarp og þessa greinargerð sem árangur af því samstarfi. Ef þetta verður að lögum verður að setja allt traust á framhaldið innan hinnar nýju stofnunar. Það er óljóst hvernig það á að verða af hálfu ráðherrans. Það er ekkert getið t.d. um innra skipulag í þessu og það á eftir að skipta gríðarlega miklu máli, ef þessi lög verða samþykkt, hver verður næsti forstöðumaður. Ég treysti því að næsti forstöðumaður þessarar stofnunar, ég vona, ef þetta frumvarp verður að lögum, að hann verði góður maður. En ég tel óvarlegt að samþykkja lög sem beinlínis gera ráð fyrir því að forstöðumaðurinn næsti sé stjórnskipunarsnillingur sem geti fylkt öllum fræðimönnum hjá þessum stofnunum fimm á bak við sig. Ég vil segja að ég hefði talið hyggilegast að láta þetta mál bíða nokkur ár, að það verði unnið miklu betur og síðan komið (Forseti hringir.) aftur með það þegar þessi nýja stofnun fær það húsnæði sem henni hefur verið lofað, sem er eftir fimm til tíu (Forseti hringir.) ár.