132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ég tel að hér sé farið af stað með þá hugmyndafræði að efla eigi þessar stofnanir, og eins og ég sagði í ræðu minni kann vel að vera að þessi aðgerð, sameining þessara stofnana, efli þær til langs tíma litið. Það sem ég varaði við var að skrefin yrðu tekin of hratt, of flausturslega, af einhverju óðagoti. Hugleiðingar mínar lutu að því að það kynni að vera að fyrst þegar þakið er komið, hið sameiginlega þak þessara stofnana, gætu stofnanirnar farið að starfa saman. Um þetta get ég ekkert fullyrt vegna þess að ég þekki ekki þessar stofnanir. Ég tel hins vegar einsýnt og ég treysti því að hv. formaður menntamálanefndar starfi að því með okkur hinum í menntamálanefnd Alþingis að fá fram allar þær upplýsingar sem þarf varðandi þetta mál, að forstöðumenn þessara stofnana verði kallaðir fyrir nefndina og við fáum að heyra sjónarmið þeirra í þessum efnum og á hvern hátt þeir sæju fyrir sér að best yrði á málum haldið. Því það hefur ekki komið fram enn þá á hvern hátt þeir líta þessi mál þó að hæstv. ráðherra segi að málið hafi verið unnið í samráði við þá.