132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Samráðsskylda stjórnvalda við samtök fatlaðra.

385. mál
[18:58]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Í lögum um málefni fatlaðra segir að markmið þeirra séu m.a. að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna. Þarna ætti orðið „sambærileg lífskjör“ að sjálfsögðu að vera fallið út og standa einfaldlega „jöfn kjör“ á við aðra Íslendinga.

Í lögunum stendur jafnframt, með leyfi forseta:

„Við framkvæmd á markmiðum laganna skal tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra.“

Á þessu er greinilega mikil brotalöm sem hv. þm. Guðmundur Magnússon veit manna best hér á hinu háa Alþingi og er væntanlega ástæða þess að hann leggur fram þingsályktun um samráðsskyldu stjórnvalda við samtök fatlaðra.

Í greinargerð segir m.a.:

„Of rík tilhneiging er til að fjalla um málefni fatlaðra, og reyndar margra annarra hópa samfélagsins, að þeim fjarstöddum en krafa fatlaðra er „ekkert um okkur án okkar“. “

Þetta er mjög athyglisvert og segir að sjálfsögðu allt sem segja þarf.

Herra forseti. Það er von mín og okkar í Samfylkingunni að þessi þingsályktun fái brautargengi. Þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á skilningi fólks á Vesturlöndum á málefnum fatlaðra, eins og kemur fram í nýútkominni skýrslu Stefáns Ólafssonar um örorku og velferð á Íslandi, sem hv. þingmaður vitnaði til, þá hefur hugmyndaþróunin í þessum málum ekki náð til fulls inn í opinbera þjóðmálaumræðu hér á landi.