132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Samráðsskylda stjórnvalda við samtök fatlaðra.

385. mál
[19:00]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með það mál sem hann flytur og þakka honum gott samstarf þá daga sem hann hefur staldrað við í þinginu í trausti þess að þetta verði ekki síðasta mál sem hann flytji á þingi né síðustu ræður sem hann flytji hér þó hann hverfi af vettvangi nú um stund.

Málið er brýnt og ekki bara fyrir fatlaða heldur ekki síst fyrir stjórnvöld því eins og við höfum séð svo fjöldamörg dæmi um á undanförnum mánuðum og missirum hefðu íslensk stjórnvöld getað sparað sér ærið ómakið og forðast mörg gönuhlaupin með einföldu samráði á þessu hausti, eins og t.d. í málefnum um bifreiðastyrk til hreyfihamlaðra eða öðrum málefnum sem snúa að fötluðum og ekki var haft samráð við þá um.

Ég vil hins vegar — vegna þess að það eru því miður alla jafna afdrif þingsályktunartillagna frá stjórnarandstöðunni að sofna í nefnd því meiri hlutinn hleypir þeim ekki út þaðan aftur nema í algerum undantekningartilfellum — aðeins taka fram um skilning á orðalagi þar sem flutningsmenn tala um að gera stjórnvöldum skylt að hafa samráð við samtök fatlaðra. Það er trúlega ætlan þeirra og full ástæða til að skerpa á þeirri skyldu og útfæra til þess leiðir. En ég vil leggja á það ríka áherslu að stjórnvöldum er skylt að hafa samráð við samtök fatlaðra um mál sem að þeim lýtur. Á það leggja ákvæði í meginreglum Sameinuðu þjóðanna ríka áherslu sem Ísland hefur fyrir sitt leyti staðfest og ríkisstjórn Íslands er með þeim hætti skuldbundin af þeim samráðsskyldum við samtök fatlaðra sem lögð er áhersla á í meginreglum Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna er einfaldlega mikilvægt að sá misskilningur verði ekki við meðferð málsins að sú réttarstaða sé uppi að þeim sé ekki skylt að hafa samráð við samtök fatlaðra. Íslenskum stjórnvöldum er skylt að hafa samráð við samtök fatlaðra. Það er fyllilega þess virði af flutningsmönnum að reyna að skerpa þá skyldu og útfæra með einhverju móti.