132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Túnis.

284. mál
[19:11]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Túnis. Þetta er 284. mál þingsins en nefndarálitið er að finna á þskj. 464.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Túnis sem undirritaður var í Genf í Sviss 17. desember 2004.

Samningurinn við Túnis kveður á um afnám tolla á iðnaðarvörum, sjávarafurðum og unnum landbúnaðarvörum auk þess sem í honum eru ákvæði um vernd fjárfestinga og hugverkaréttinda, þjónustuviðskipti og úrlausn deilumála. Gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin afnemi tolla og aðrar takmarkanir á innflutningi vöru sem samningurinn tekur til um leið og hann öðlast gildi en Túnis afnemi hins vegar tolla á ákveðnu aðlögunartímabili sem lýkur 1. júlí 2008. Aðlögunartími fyrir sjávarafurðir verður hins vegar allt að 18 árum uns fullri fríverslun með sjávarafurðir verður komið á.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt, virðulegi forseti.