132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn.

285. mál
[19:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins í örfáum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á þessu máli. Hann tengist þeirri staðreynd að hluti hins svonefnda Árósasamnings er hér að koma inn í íslenska löggjöf eða það er verið að leggja til að fullgilda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um það atriði sem felur í sér að í framhaldinu taki Íslendingar upp í sinn landsrétt hluta af efni Árósasamningsins og hann kemur þá þessa nokkuð krókóttu leið, þ.e. í gegnum ákvarðanatöku í Evrópusambandinu. En staðreyndin er sú að íslensk stjórnvöld undirrituðu Árósasamninginn á sínum tíma og hafa haft ærinn tíma til þess að fullgilda efni hans og koma þeim hér fyrir í lögum. Á því hafa menn heykst og það höfum við harðlega gagnrýnt undanfarin ár.

Það er að sjálfsögðu til bóta að sá hluti hans, sem varðar aðgang almennings að ýmsum upplýsingum um umhverfismál, komi inn en eftir stendur að íslensk stjórnvöld hafa ekki unnið heimavinnuna sína og fullgilt Árósasamninginn með þeim hætti sem vonir stóðu til. Þetta er að okkar mati alls ekki ásættanleg málsmeðferð og hefur oft áður orðið tilefni til umræðna hér á Alþingi og gagnrýni af okkar hálfu.

Svo vil ég einnig geta þess að það frumvarp sem framsögumaður nefndi og er hér til umfjöllunar í þinginu er að okkar dómi þannig að á því þyrfti að gera breytingar eða þar mættu hlutir betur fara og við hljótum því að áskilja okkur sömuleiðis allan rétt hvað það varðar.