132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. menntamálaráðherra gaf, að hún skuli ætla að taka þessi samræmdu stúdentspróf aftur inn á sitt borð og endurskoða þau. Það er auðvitað tímabært í ljósi framkvæmdanna. Þar með er þó fögnuður minn í garð hæstv. menntamálaráðherra upp talinn í dag því að ég verð að kveðja mér hljóðs, hæstv. forseti, vegna framgöngu hennar í sjónvarpi í gærkvöldi og reyndar í Ríkisútvarpinu líka í morgun þar sem hæstv. menntamálaráðherra varð heldur betur á í messunni.

Hún gerðist sek um það að mæta í viðtal í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi til að fjalla í smáatriðum um frumvarp um Ríkisútvarpið eins og málið væri komið fram á Alþingi — sem það er ekki. Svona gerir maður ekki, frú forseti, sérstaklega ekki í ljósi fyrri yfirlýsinga hæstv. menntamálaráðherra um samstarf og samráð, ekki í hvaða máli sem er, ekki í einhverju allt öðru máli en þessu, heldur í málefnum fjölmiðla. Eða minnast menn orða hennar þegar fjölmiðlaskýrslan fræga var gefin út og hún talaði fjálglega á fundi í Þjóðmenningarhúsinu um samstarf og samráð? Ég spyr: Er allt samstarf og samráð þessa hæstv. menntamálaráðherra á þeim nótum sem hún nú hefur sýnt okkur, ekki bara í þessu máli með RÚV núna heldur í fleiri málum þar sem samráðið er allt eftir á? Þegar menn gagnrýna er ýmist ekki hlustað eða gagnrýninni er vísað á bug.

Ég spyr, frú forseti, hvort þetta verði látið viðgangast, hvort forseti ætli að láta þetta óátalið. Í morgun gekk hæstv. menntamálaráðherra svo langt að svara ímynduðum mótbárum míns flokks við málinu. Ég ætla að lýsa því yfir hér að ég og við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum tilbúin í þau skoðanaskipti hvenær sem er. En við verðum þá að vera búin að fá málið fram til að geta skipst á skoðunum við hæstv. menntamálaráðherra. Svona getur maður ekki komið fram í lýðræðissamfélagi í máli sem (Forseti hringir.) er og verður umdeilt.