132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:45]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrst að samræmdu stúdentsprófunum. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að stjórnvöld ætli að endurskoða þetta mál. Það er gríðarleg óánægja með það en frásagnir af því hafa líka verið nokkuð misvísandi. Þetta virðist vera haltu mér – slepptu mér staða, eins konar pattstaða. Ég vil þó segja þá skoðun mína að ég tel að nemendur eigi ekki að ganga svo langt að hunsa þessi próf algjörlega eins og brögð hafa verið að. Ég held að með því séu þau að skaða sjálfa sig mest en að sjálfsögðu ber að endurskoða þetta og það er fagnaðarefni að það standi til.

Að hinu málinu, virðulegi forseti, Ríkisútvarpinu. Mér finnst mjög gagnrýnivert að það skuli hafa tekið hálft ár að koma þessu frumvarpi aftur inn í þingið í breyttri mynd þegar við heyrum fréttir af því að breytingarnar séu ekki meiri en svo að kannski hafi verið breytt einni setningu í öllu frumvarpinu. Hvers vegna í ósköpunum tekur hæstv. menntamálaráðherra svona langan tíma að koma þessu frumvarpi frá sér ef það er efnislega nánast eins og frumvarpið sem var lagt fyrir þingið í vor og fór þá í gegnum 1. umr.? Það er búið að skipta orðinu „sameignarfélag“ út fyrir orðið „hlutafélag“.

Hvað hefur fólkið í menntamálaráðuneytinu verið að gera allan þennan tíma? Og hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta frumvarp er komið á þvæling úti í bæ, frumvarp frá ráðherra? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var á flækingi í morgun í höfuðstöðvum Norðurljósa á fréttastöðinni NFS í umræðuþætti þar í beinni útsendingu á móti Margréti Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, þar sem þau töluðu um þetta frumvarp og þar sat hann í beinni útsendingu með þetta frumvarp á milli handanna. Mér finnst alveg ólíðandi að frumvarpið sé á þvælingi úti í bæ þegar það er ekki einu sinni búið að prenta það hér á þingi, það er ekki einu sinni búið að dreifa því til þingmanna. Svona vinnubrögð eru hreinlega ekki verjandi.