132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:53]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim efasemdum sem hafa komið fram held ég hjá öllum sem til máls hafa tekið um ágæti samræmdra stúdentsprófa. Ég fagna því líka að hæstv. menntamálaráðherra lýsir yfir efasemdum sínum um tilgang prófanna og framkvæmd þeirra. Hæstv. ráðherra lýsir hér yfir að þau verði tekin til endurskoðunar og ég vona að sú endurskoðun sé auk þess vísir að nýjum vinnubrögðum. Það er aldrei málum til framdráttar þegar þau eru kynnt með miklum fjölmiðlahasar og síðan dregið í land þegar á hólminn er komið, heldur þarf að vinna þetta mál upp á nýtt í samráði við skólasamfélagið eins og það leggur sig.

Það skortir að prófin séu sniðin að þeim markmiðum sem upp var lagt með og það verður að fara yfir endurskoðun á tilgangi þeirra og framkvæmd í samráði við skólasamfélagið allt. Það væri mjög heppilegt í ljósi þess hvernig þetta mál hefur snert skólasamfélagið á undanförnum vikum og mánuðum, hundruð nemenda úti í bæ hafa mótmælt prófunum með því að skila auðu og skilaboðin til þeirra þurfa að vera skýr. Vonandi svarar hæstv. menntamálaráðherra spurningum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur játandi eða tekur líklega undir það að prófin verði lögð niður og ekki notuð á næstu önn. Það væru jákvæð skilaboð út í skólasamfélagið og síðan yrði málið allt tekið til gagngerrar endurskoðunar og fundnar aðrar leiðir til að gæðamæla skólana. Háskólarnir nota sínar eigin aðferðir við að taka inn stúdenta í þær deildir sínar sem þeir þurfa að velja inn í. Samræmd stúdentspróf í ensku, íslensku og stærðfræði segja ósköp lítið til um það hvort viðkomandi nemandi sé hæfari en annar til að hefja t.d. nám í læknisfræði þannig að aðrar leiðir eru heppilegri og betri en þessi.