132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:57]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég verð nú að segja út af umræðunni vegna RÚV að mér finnst þetta vera óttaleg viðkvæmni af hálfu ákveðinna þingmanna hér inni að ekki megi ræða það frumvarp sem er verið að leggja fram í dag. Þetta er viðtekin venja og það eru mörg fordæmi fyrir því að ráðherra ræði mál sín fyrir fram — sem og þingmenn annarra flokka, eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Það hefur líka berlega komið fram. Ég segi þá að ég býst við því að ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér í stjórnarandstöðunni muni þeir ávallt leggja málin fram fyrir þing og tjá sig eftir það.

Það ætla ég hins vegar ekki að gera. Málið varðandi Ríkisútvarpið er í eðlilegum farvegi. Það var fyrst kynnt í ríkisstjórn, síðan er búið að kynna það þingmönnum stjórnarflokkanna sem hafa samþykkt það þannig að málið var ekkert á neinum þvælingi úti í bæ þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tjáði sig um það í morgun. (Gripið fram í.) Hann gat auðvitað ekkert samþykkt málið innan þingflokksins nema hafa kynnt sér það þannig að við höfum það alveg á hreinu. Ég hlakka til að ræða málið fyrir jól við hv. þm. Ögmund Jónasson sem greinilega ber hagsmuni Ríkisútvarpsins fyrir brjósti eins og allir aðrir.

Varðandi samræmdu prófin vil ég ítreka þær efasemdir sem ég hef uppi varðandi þau. Ég efast um, án þess að vilja slá þau af hér og nú, að þau verði í þeirri mynd sem þau eru og voru á síðustu dögum. Eins og ég gat þó um áðan vil ég sérstaklega kalla til þá aðila sem þetta mál snertir, kennara, nemendur, háskólann ekki síst, til að fara gaumgæfilega yfir málið. Það þurfa að vera faglegar forsendur ef við ætlum að breyta þessu ákvæði í lögum — sem enginn flokkur greiddi atkvæði á móti. Það verða að vera faglegar forsendur fyrir því ef við ætlum að fara gegn því markmiði sem þessu var ætlað í upphafi, þ.e. að koma upp öflugu tæki fyrir háskólana annars vegar og hins vegar að efla og styrkja gæðaeftirlitið innan framhaldsskólakerfisins. Þetta allt þurfum við að sjálfsögðu að fara yfir því að við viljum halda hér uppi öflugu og fjölbreyttu framhaldsskólanámi en ég efast um að það verði best gert með samræmdum prófum.