132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:10]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrir hönd okkar í Samfylkingunni þakka ég hv. formanni fjárlaganefndar fyrir það ágæta samstarf sem hann hér nefndi. Meðan við störfuðum að fjárlögunum í fjárlaganefnd Alþingis komu fram skýrslur um stöðu ríkisháskólanna í landinu sem hljóta að valda okkur öllum áhyggjum. Þar er fyrst til að taka nýlega skýrslu um stöðu Háskólans á Akureyri og síðan alþjóðlega samanburðarskýrslu um stöðu Háskóla Íslands þar sem í ljós kemur í þeirri rannsókn að aðeins háskóli einn í Króatíu býr við lakari fjárhag en hann. Framlög okkar til háskólastigsins eru aðeins rétt liðlega 1,1% af landsframleiðslu samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í sumar meðan meðaltal OECD-ríkjanna er 1,4% og framlög Kanadamanna og Bandaríkjamanna 2,5% og 2,7%, þ.e. meira en tvöföld framlög okkar til háskólastigsins.

Framhaldsmenntun í landinu er fjöregg framtíðarinnar og við hljótum að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvers vegna háskólastigið í landinu er ávallt aftast á forgangslista meiri hlutans, hvers vegna meiri hlutinn vanrækir ár frá ári að sinna þeirri brýnu fjárvöntun sem er á háskólastiginu. Hvaða afleiðingar heldur hv. formaður að þessi áralanga vanræksla ríkisstjórnarinnar muni hafa á háskólamenntun í landinu, á samkeppnisstöðu Íslands til langrar framtíðar?