132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar hjúkrunarheimilin og það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði um þau mál er ekkert nýtt í umræðunni. Við höfum rætt þetta mál meira og minna í allt haust og ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem ég hef sagt áður. Eftir því sem ég best veit og hef upplýsingar um er verið að vinna að þessum málum í heilbrigðisráðuneytinu með aðilum málsins og mér skilst að niðurstaðan sé ekki komin í því. Ég á því í sjálfu sér, virðulegi forseti, svolítið erfitt því ég get engu bætt við það sem ég hef áður sagt. Reyndar er hv. þm. Jón Bjarnason líka að fara með sömu tugguna því að við erum búnir að ræða þetta mál á sömu nótum í allt haust.