132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:22]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir mér eru málefni öldrunarheimila og hjúkrunarheimila engin tugga. Fyrir mér er þetta grafalvarlegt mál. Það hefur legið fyrir í allt haust hver rekstrarvandi þessara heimila er og hverju þarf að bæta inn í. Það er vitað að rekstrargrunnur öldrunarheimilanna hefur kerfisbundið verið skertur á undanförnum árum. Það hefur legið fyrir og enn er þetta í nefnd, enn eru menn að ræða um þetta segir hv. formaður fjárlaganefndar.

Frú forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað þarf að gera. Það þarf fjármagn inn í rekstrargrunninn, til þess að bæta aðstöðu, og inn í stofnkostnað elli- og hjúkrunarheimila. Það er okkur til vansa að taka ekki á þessu máli af festu og skilningi.

Frú forseti. Fátt harma ég meir við afgreiðslu þessara fjárlaga en að skilja eigi elli- og hjúkrunarheimilin eftir úti í kuldanum í ári sem menn kalla góðæri.