132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:24]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kominn tími til að skipta um ríkisstjórn. Það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram er til vitnis um það. Í ellefta sinn er lagt fram frumvarp til aukinnar misskiptingar í íslensku samfélagi. Hér sjáum við í einum pakka nýtt met í eyðslusemi á þeim tímum þegar aðhalds er helst þörf vegna þenslu. Hér sjáum við vítaverða vanrækslu á framlögum til háskólastigsins í landinu sem grefur undan samkeppnisstöðu okkar við aðrar þjóðir til langrar framtíðar og lýsir því hversu kolröng forgangsröðun stjórnarmeirihlutans er orðin. Pláss er fyrir hvers kyns þarflaus gæluverkefni á allar hendur en ekki nægt fé til að sinna mikilvægustu menntastofnunum landsins svo að sómi sé að, Háskóla Íslands, Kennaraháskólanum, Háskólanum á Akureyri og öðrum slíkum stofnunum.

Hér hefur auðvitað ekkert gerst á milli 2. og 3. umr., enda varla að meiri hlutinn nenni orðið eftir yfir 10 ára stjórnarsetu að skila fjárlögum í því ástandi að sómi sé að. Hefur framkvæmd fjárlaga enda verið til vansa um langt árabil og þá orðin gefin stærð að útgjöld frumvarpsins verði aldrei lægri en fast að 10 milljörðum umfram það sem stendur í frumvarpinu sjálfu og er frumvarpið þó kallað fjárlög, virðulegi forseti. Þannig gefur Seðlabankinn sér t.d. í spá sinni frá því á föstudaginn var, undir forustu Davíðs Oddssonar, að aukning samneyslunnar verði 3% nærfellt, en ekki 2% eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Kemur það heim og saman við reynslu undanfarinna ára að það er því miður harla lítið að marka fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar þegar að útgjöldunum kemur.

Lausatök hafa líka einkennt fjárlagagerðina og eftirfylgnina í mörg undangengin ár og þannig eru yfirfærðar til stofnana fjárheimildir fyrir um 20 milljarða kr. við síðustu áramót eins og ekkert sé sjálfsagðara. Stofnanir flytja milli ára uppsafnaðan halla, samkvæmt þeim svörum sem við höfum fengið milli umræðna, trúlega um 8 milljarða kr. hið minnsta þetta árið. Yfir 100 fjárlagaliðir sem fram úr fara en lítil viðleitni til að taka á þeim vanda og þeim lausatökum og agaleysi sem virðist vera í framkvæmd fjárlaga.

Hér lýsti varaformaður fjárlaganefndar því yfir nýverið, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að stjórnsýslan hefði allt of mikinn pening á milli handanna. Það er býsna rétt lýsing hjá hv. þingmanni og hann þekkir auðvitað veruleika ríkisfjármála ákaflega vel sitjandi í fjárlaganefnd og fjallandi um málin þaðan. Þar sjáum við að þessi mikli fjáraustur á báðar hendur í hvers kyns gæluverkefni, og það mikla fé sem stjórnsýslan, aðhalds- og eftirlitslítið af þingsins hálfu, fær að hafa milli handanna, leiðir auðvitað til óhæfilegs agaleysis og aðhaldsskorts í ríkisfjármálunum almennt. Og það er sérstakt áhyggjuefni á þessum tíma þegar þensla í íslensku samfélagi er meiri en nokkru sinni fyrr og meiri ástæða til að sýna aðhald og aga í ríkisfjármálunum en nokkru sinni áður.

Við gerðum forsendur fjárlagafrumvarpsins að umfjöllunarefni við 1. umr. en þær hafa hin síðari ár verið annar af helstu veikleikum frumvarpsins og hafa staðist illa. Á þessu ári hefur m.a. frávikið frá spám fjármálaráðuneytisins satt að segja verið gríðarlegt. Nú höfum við nýja spá Seðlabankans frá því á föstudaginn var og þá kemur í ljós að í stað þess sem fjármálaráðuneytið spáir um liðlega 4% aukningu á einkaneyslunni þá eykst hún samkvæmt spá Seðlabankans um nærfellt 8%. Fjármálaráðuneytið spáir samneyslunni aukningu upp á rúm 2%, Seðlabankinn nær 3%. Meðan fjármálaráðuneytið spáir 1% aukningu á fjárfestingu spáir Seðlabankinn 3% samdrætti á fjárfestingu. Það er áhyggjuefni að hætt er við því að í fjárlagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir sé þenslan í hagkerfinu vanmetin, framleiðsluspennan í hagkerfinu vanmetin. Hún hefur hér verið talin vera minni en var árið 2000 og má það koma nokkuð á óvart. Ég hygg að það blasi við hverjum manni að hér hefur ekki verið meiri þensla og þrýstingur á hagkerfið allt um langt árabil. Ástæða er til að taka undir með nýjum seðlabankastjóra og seðlabankastjóra Dana þegar þeir leggja áherslu á að það er jafnmikilvægt í efnahagsmálunum að virða reglur um hámarkshraða eins og í umferðinni og það er engum blöðum um það að fletta að við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér hafi verið of geyst farið og hér hafi í ríkisfjármálunum ekki verið haldið nægilega traust um framkvæmd þeirra og um forsendur um langt árabil.

Í skattaaðgerðum ríkisstjórnarinnar er enn verið að auka á misskiptinguna í samfélaginu eins og við fórum yfir við 2. umr. Áherslur þessarar ríkisstjórnar hafa verið á það að halda niðri persónuafslættinum sem kemur hinum lægst launuðu verst en að lækka prósentuna í tekjuskattinum og afnema hátekjuskattinn, sérstaka tekjuskattinn, og afnema ýmsa aðra skatta af eigna- og hátekjufólki. Þetta hefur smátt og smátt nú á rúmum áratug leitt til þess að láglaunafólk, lífeyrisþegar til að mynda með 110 þús. kr. á mánuði greiða heilum mánaðarlaunum meira í skatta en þeir gerðu fyrir tíu árum meðan við, hátekjufólkið, greiðum fast að heilum mánaðarlaunum minna í skatta. Þannig hefur hagur lífeyrisþega og hinna verst settu skipulega, meðvitað og af pólitískum ástæðum verið gerður þyngri í því skyni að skapa rými til að létta byrðum af eignafólki, fjármagnstekjueigendum og hátekjufólki.

Afleiðing þeirrar þróunar til langs tíma kemur síðan glögglega í ljós til að mynda í skýrslu Stefáns Ólafssonar um kjör öryrkja og velferð á Íslandi þar sem það sést hvernig bilið í íslensku samfélagi breikkar, hvernig það gliðnar á milli hópanna enn frekar og hvernig hinir lægst launuðu verða eftir í tekjuþróuninni. Um það hefur talsvert verið fjallað í fjölmiðlum undanfarna daga og er út af fyrir sig óþarfi að tíunda hér enn, enda höfum við farið yfir þessa þætti í stefnu ríkisstjórnarinnar bæði við 1. og 2. umr.

Á útgjaldahlið frumvarpsins er fyrir utan ranga forgangsröðun og lausatök almennt, eins og ég nefndi hér fyrr, fyrst og fremst ástæða til að hafa áhyggjur af vanrækslu þegar kemur að háskólastiginu í landinu. Því miður var hæstv. menntamálaráðherra fjarstaddur við 2. umr. fjárlaga, efnisumræðu fjárlaganna sjálfra, og er það miður því að menntamálin eru auðvitað næststærsti útgjaldamálaflokkurinn í ríkisfjármálunum og mikilvægt að unnt sé að fjalla um hann vel og ítarlega við 2. umr. fjárlaga en ég trúi því að við nýtum 3. umr. þeim mun betur til að ræða sérstaklega um þann málaflokk við hæstv. ráðherra þegar hann er kominn aftur til leiks.

Okkur hafa á undanförnum mánuðum borist ýmsar skýrslur í fjárlaganefnd, stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands, sérstök úttekt á Háskólanum á Akureyri auk þess sem hér hefur verið kynnt samanburðarrannsókn á níu háskólum í Evrópu gerð af hlutlausum alþjóðlegum aðilum. Niðurstöðurnar úr þessum úttektum staðfesta það sem við í Samfylkingunni höfum verið að segja í þinginu um langt árabil. Það að ríkisstjórn Íslands vanrækir framlög til háskólastigsins svo mjög að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að það dragi úr samkeppnishæfni okkar til framtíðar og við séum ekki að skapa ungu kynslóðinni í landinu þær kjöraðstæður sem hún þarf og verður að búa við í menntamálum ef hún ætlar að geta keppt við aðrar þjóðir til langrar framtíðar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í sumar kemur fram að þegar kemur að menntamálum í samanburði OECD-ríkjanna þá trónum við ekki á toppnum eins og við eigum að venjast í nær öllum málaflokkum, Íslendingar, eigandi heimsmet í öllu sem kunnugt er. Nei, framlög til háskólastigsins eru samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar 1,14% af landsframleiðslu. Meðaltal OECD-ríkjanna er 1,4%. Þeir sem verja mestu verja 2,5–2,7%. Við erum sem sagt verulega undir meðaltali OECD-ríkjanna, hvað þá að við séum í fremstu röð þegar kemur að framlögum til háskólastigsins. Þetta hlýtur að vera okkur vaxandi áhyggjuefni. Við vitum að hér koma stjórnarþingmennirnir iðulega og vísa til þess að fjárframlög til háskólanna hafi verið að aukast á undanförnum árum og það er út af fyrir sig rétt. En hvers vegna hafa þau verið að aukast? Það er vegna þess að nemendunum hefur verið að fjölga. Það er meginskýringin. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að við erum yngri þjóð en OECD-ríkin almennt. Þar af leiðandi er fleira fólk á Íslandi á þeim aldri sem sækir nám í háskóla og þess vegna ættu framlög til menntamála að vera enn hærri en ella. Þess vegna er enn ríkari ástæða til að við séum ekki langt undir meðaltali OECD-ríkjanna í framlögum til háskólastigsins heldur vel yfir því því að miðað við aldurssamsetningu þjóðarinnar verðum við að vera það. Og þegar við fáum staðfestan alþjóðlegan samanburð á níu háskólum þar sem Háskóli Íslands rétt skríður upp fyrir háskóla í Króatíu í fjárframlögum en kemst hvergi nærri hinum sjö skólunum sem bornir eru saman í fjárframlögum á hvern nemanda, þá er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur. Ég trúi því og treysti að hæstv. menntamálaráðherra muni við umræðuna fara yfir áherslur sínar í þessu og þær málsbætur sem ráðherrann kann að eiga. En það hlýtur auðvitað að setja að okkur öllum ugg ef ekki er búið betur að fjöreggi þjóðarinnar, framhaldsmenntuninni í landinu, því það er í framhaldsnáminu sem við fáum ungu kynslóðinni þau vopn sem duga henni í sífellt harðnandi alþjóðlegri samkeppni og það er sú menntun sem atvinnulífið treystir á og þarf að geta byggt á framfarir, rannsóknir og þróun á komandi árum og þannig staðið undir góðum lífskjörum áfram í landinu.

Virðulegur forseti. Í ljósi þess að hér hafa ekki orðið neinar breytingar á milli 2. og 3. umr. þá er í sjálfu sér ekki efni til að fara í lengra máli yfir það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það var af minni hálfu nokkuð fullrætt þegar við 2. umr. Ég hef aðeins notað tækifærið til að vekja athygli á helstu vanköntum sem sjá má á þessu frumvarpi. Þeir lúta sem fyrr segir að því að forsendur frumvarpsins eru eins og hin fyrri ár ákaflega veikar og veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að þær standist ekki, enda Seðlabankinn með allt aðrar forsendur, nú síðast á föstudaginn var.

Í öðru lagi: Lausatök í ríkisfjármálum þar sem útgjöldin sem sýnd eru í fjárlagafrumvörpunum reynast aldrei standast en verða 10 milljörðum meiri hið minnsta á ári hverju.

Í þriðja lagi: Sívaxandi misskipting tekna í landinu þar sem skattkerfisbreytingum ríkisstjórnarinnar hefur í 11 ár verið skipulega beitt til þess smátt og smátt, skref fyrir skref að létta sköttum af eignafólki og hátekjufólki um mánaðarlaun á ári og þyngja skattbyrði hinna lægst launuðu, lífeyrisþeganna, um heil mánaðarlaun á ári. Það hlýtur að vera langstærsta áhyggjuefni okkar í íslensku samfélagi því að sá ójöfnuður sem ríkisstjórnin þannig beitir sér fyrir ógnar stöðugleikanum í landinu, ógnar því að við séum ein þjóð í landinu og ógnar þeirri samheldni sem hefur einkennt íslenskt samfélag umfram annað ef hér er skipulega á hinum pólitíska vettvangi unnið að því að þyngja byrðar hinna verst settu en létta byrðar þeirra sem allt hafa til alls.

Að síðustu er helst ástæða til þess í útgjaldalið þessa frumvarps að hafa áhyggjur af framlögum til háskólastigsins af því að þegar kemur að menntamálunum, mikilvægustu fjárfestingu okkar til framtíðar þá eru framlög hér því miður samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar langt undir meðaltali OECD-ríkja.