132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það komið fram í sanngjarnri orðræðu að hér hafa framlög til háskólastigsins aukist vegna fjölgunar nemenda. En við erum langt undir meðaltali OECD-ríkjanna. Nærri 20% undir því meðaltali og hefur það þó aldrei verið markmið okkar Íslendinga að vera meðaltalsþjóð í menntamálum. (Gripið fram í.) Við skulum auka framlög til menntamála á hvern nemanda, hæstv. menntamálaráðherra, því það er ekki boðlegt og það er algerlega ótækt að í alþjóðlegum samanburði sé flaggskip háskólastigsins á Íslandi, Háskóli Íslands, með framlög á hvern nemanda, í áttunda sæti af níu skólum sem hann er borinn saman við. Aðeins háskóli úr gömlu Austur-Evrópu, úr hinni stríðshrjáðu Júgóslavíu, þarf að búa við lakari kost í framlögum á hvern nemanda en hæstv. menntamálaráðherra úthlutar Háskóla Íslands. (Gripið fram í: Horfðu á þróunina.) Enda eru það auðvitað aðrir háskólar á háskólastiginu sem átt hafa allan hug hæstv. menntamálaráðherra. Það er áhyggjuefni þegar við tölum um staðreyndirnar, hæstv. menntamálaráðherra, að nærfellt 3 milljarða kr. vantar til að við Íslendingar séum meðaltalsþjóð í framlögum til háskólastigsins. (Gripið fram í.) Sú frammistaða hlýtur að kalla á alvarlega gagnrýni á stefnumörkun okkar í menntamálum.