132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:00]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. varaformaður fjárlaganefndar hefur nú haldið sína árlegu hvatningarræðu til íslenskrar alþýðu. Það er vissulega tilefni til að svara mörgu af því sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni en í ljósi hins stutta tíma vil ég einungis nefna fátt. Auðvitað á eftir að verða niðursveifla, segir hv. þingmaður. Þá spyr ég: Er ekki hv. þingmaður þar með að viðurkenna þá kenningu okkar hv. þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að sú skattalækkun sem ríkisstjórnin hefur stundað í bullandi góðæri verði til þess, þegar niðursveiflan verður, að ríkisstjórnin fái gott tækifæri til að skera niður útgjöld sín? Er það ekki það sem þeir stefna leynt og ljóst að, þeir menn sem eru svona framsýnir og sjá svona langt fram í tímann eins og hv. þingmaður?

Síðan vil ég mótmæla því hvernig hv. þingmaður talar um Stefán Ólafsson, segir hann vera vandaðan vísindamann en talar síðan um skýrsluna hans sem áróðursplagg og að hún sé lituð af skoðunum hans.