132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:05]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér reglulega í ræðustól og talar um allt of hátt gengi íslensku krónunnar. Nú ber svo við að hv. þingmaður vill tala í evrum. Það er vegna þess að hann er að fara yfir þróun örorkulífeyris á Íslandi. Eina leiðin til að hann geti sýnt hana skaplega er að sýna samanburðinn í evrum. Ég held að það segi nóg um þær ógöngur sem hv. þingmaður er í í málflutningi sínum. Svo kallar hann reglulega hér í þinginu eins og hrópandinn í eyðimörkinni: Hverjir eiga ekki að hækka? Og heldur sig býsna snjallan. Spurningin snýst ekki um það, hv. þingmaður. Spurningin snýst um það: Hverjir eiga ekki að lækka? Því hv. þingmaður hefur lækkað skattana á sjálfum sér, mér og öðrum hátekjumönnum í landinu um 30 milljarða kr. Til að geta gert það hefur hann skert vaxtabætur ungu húsbyggjendanna, skert barnabætur barnafjölskyldnanna og lagt heil mánaðarlaun í skatta á (Forseti hringir.) lífeyrisþegana í landinu. Hverjir eiga ekki að lækka, hv. þingmaður? Það erum við, hv. þingmaður.