132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:08]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir vita, þar með talinn hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að á undanförnum 10 árum hefur tekjuskiptingin í landinu orðið mun ójafnari en áður var. Ekki síst ræður skattapólitík hv. þingmanns þar miklu um, því að við hátekjumennirnir borgum nú mánaðarlaunum minna meðan lífeyrisþegarnir eru látnir borga mánaðarlaunum meira og barnabætur og vaxtabætur eru skertar. Í því frumvarpi sem við fjöllum hér um er verið að lækka skattana á hv. þingmann sem hér stendur og hv. ræðumann. Það er ekki það verkefni sem á að ráðast í hér. En hv. þingmaður sagði að Stefán Ólafsson prófessor væri áróðursmaður vegna þess að hann tryði á að hér ætti að vera norrænt velferðarkerfi. Sú yfirlýsing hv. þingmanns hlýtur að kalla á að við spyrjum hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að hér í landinu eigi að vera velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd (Forseti hringir.) og að hér eigum við að búa við jöfnuð og velferð eins og í nágrannalöndum okkar.