132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í þessari skýrslu stendur að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann í landinu hafi hækkað á þessum síðustu 10 árum um 50%. Þar stendur líka að kaupmáttur einstæðra foreldra í hópi öryrkja hafi aðeins hækkað um 30%. Það stendur líka hér að skattbyrði einhleypra öryrkja hafi aukist að jafnaði um 131% á þessum tíma. Og öryrkjar og þeir sem voru með lægstar tekjurnar borguðu nánast engan skatt á árinu 1995. Það stendur líka í þessari skýrslu að hámarksörorkulífeyrir frá almannatryggingum varð hæstur sem hlutfall af meðaltekjum allra framteljenda í landinu árið 1993. Eða um 52% en lækkaði niður í 41% árið 2001. Það er staðreynd að skattleysismörkin hafa verið svo mikið skert að tugir milljarða hafa verið fluttir af þeim sem minnst hafa milli handanna til að lækka skattbyrði þeirra sem mest hafa. Þetta eru staðreyndir sem hv. þingmaður eða stjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra geta ekki hlaupið frá. Þetta eru staðreyndir málsins. Allt annað sem hv. þingmaður heldur hér fram eru öfugmæli. (Forseti hringir.)