132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:19]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við komum alltaf aftur og aftur að þessu. Það var árið 1995 að gerð var sérstök sátt hjá Alþýðusambandi Íslands og undir forustu þess um að taka lægstu launin sérstaklega út úr og allir gengu undir þau jarðarmen að krefjast ekki sömu hækkunar. Það var eina leiðin til að gera þetta og það voru allir sem lofuðu því. Þetta var gert aftur árið 1997, þá voru laun hinna lægst launuðu hækkuð alveg sérstaklega.

Þessir lægstu taxtar hjá Alþýðusambandinu eru taxtar sem eru sáralítið notaðir. Það eru þó okkar minnstu bræður sem eru að reyna að hjálpa til sem eru á þessum töxtum. Það var þjóðarsátt um að gera þetta, það var sómi að því að Alþýðusambandinu tókst að gera þetta. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er alveg rétt hjá mér og þetta er satt, og þetta samkomulag byggðist á því. Þáverandi forseti Alþýðusambands Íslands stóð fyrir þessu, vinnuveitendur samþykktu þetta, ríkið samþykkti þetta, allir gengu undir þessi jarðarmen og það var mikill sómi að því að loksins tókst að leiðrétta þau lágu laun sem þetta fólk hafði.