132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:38]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega hækkun vegna vaxtabóta, 200 millj. kr., á næsta ári en hún, virðulegi forseti, kemur til vegna verðlagshækkana á viðmiðunarfjárhæðir fyrir útreikning bótanna eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu. Ég legg til að hv. þingmaður lesi síðu 391, lið 821, um vaxtabætur, þar sem þetta kemur skýrt fram. Það er skerðing til einstaklinga í vaxtabótum. Samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir skerðingu til einstaklinga en það eru mögulega fleiri sem fá vaxtabætur. En það er klár skerðing hér. Hvernig fær hv. þingmaður það út að ekki sé verið að skerða vaxtabætur til einstaklinga? Það var gert í fyrra. Ætlar hv. þingmaður að mótmæla því? Þú getur séð það í reiknivél á vefsíðu ríkisskattstjóra ef þú reiknar út hvaða vaxtabætur þú hefur fengið á síðasta ári.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmann að ávarpa þingmanninn með réttum hætti.)

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á þessu en mér er heitt í hamsi. En hv. þingmaður getur farið, eins og ég sagði, inn á vefsíðu ríkisskattstjóra og fengið þessa útreikninga og það kemur auðvitað í ljós að vaxtabæturnar voru skertar á síðasta ári. Hér stendur, og ég las það upp áðan, að hjá einstaklingum, miðað við þá útreikninga sem notaðir hafa verið hingað til, á að fara að skerða enn frekar á næsta ári vegna þess að breyta á hámarki vaxtagjalda til útreiknings á bótum í 5% af heildarskuldum í staðinn fyrir 5,5%. Og hvernig hv. þingmaður fær það út að hér sé verið að gefa í til einstaklinga skil ég ekki. Ég óska eftir að hann útskýri það enn frekar. En ég fagna hins vegar yfirlýsingu hans um að Framsóknarflokkurinn sé ekki búinn að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokknum með að leggja vaxtabótakerfið niður. Ég vonast til að hv. þingmaður sýni það í verki og leggi til að þessi áform um skerðingu verði dregin til baka.