132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið sem nú er til 3. umr. á hinu háa Alþingi er aðför að rekstri Háskólans á Akureyri. Fram hefur komið undanfarið hjá bæjarstjórn Akureyrar, hjá sjálfstæðismanninum Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, að þar óttast menn um starfsemi og framtíð Háskólans á Akureyri, skólans sem núna rifar seglin, menntastofnunar á Akureyri, háskólans á landsbyggðinni sem núna neyðist til að loka tveimur deilda sinna til að mæta fjársveltinu sem stjórnvöld eru að setja skólann í og samanburðurinn talar sínu máli um þá stöðu. Skólinn fær verulega lægri framlög á nemanda miðað við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Háskóli Íslands, sem þarna er töluvert framar Háskólanum á Akureyri, er þó einhver fjársveltasti skóli í allri Evrópu í þeim samanburði. Og er þetta sú menntastefna sem hv. þingmaður ætlar að bjóða sínu fólki heima í kjördæmi? Það hlýtur að vera hryggilegt, virðulegi forseti.