132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni. Hvort mundu Húsvíkingar eða Þingeyingar velja fjárframlag sem næmi stofnkostnaði álverksmiðju, ríkisstyrktu framlagi til að stofna álverksmiðju og sem færi í rannsóknir og virkjanir, eða framlag til annarrar atvinnustefnu og losna við áltroðslu og áltrúnað Framsóknarflokksins? Ég vil að hv. þingmaður svari því. Hvað mundu Þingeyingar segja ef þeir fengju frjálst val? Ef Akureyringar fengju að velja um þá peningana sem nú er verið að setja í undirbúning álvers og fá þá í háskólann sinn. Eða Skagfirðingar, sem nú er stillt upp við vegg til að fá þá til að fórna jökulánum sínum? Ef við fengjum val, þó ekki væri nema þá peninga sem núna er verið að verja til álrannsókna, fengjum þá m.a. til grunnstuðnings við ferðaþjónustu. Ég vil fá svar. Hvað heldur hv. þingmaður að íbúarnir mundu segja ef þeir fengju val, fengju að velja sitt á undan áltrúboði Framsóknarflokksins?